Erlent

Útbúnaður til kjarnavopna horfinn

Útbúnaður til að búa til kjarnavopn hefur horfið frá Írak eftir að innrásin var gerð, segja vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjamenn hafa lagt ýmsar hömlur á starf eftirlitsmanna frá alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í Írak, og verða þeir að treysta á gervihnattamyndir og aðrar heimildir. Mohamed El-Baradei, yfirmaður stofnunarinnar, segir í skýrslu til öryggisráðs Sameinðu þjóðanna að gervihnattamyndir sýni að heilar byggingar í tengslum við kjarnorkuvopnaframleiðslu í Írak hafi verið rifnar án þess að neinar upplýsingar hafi verið gefnar um það, og útbúnaður fluttur á brott. Viðkvæmur tæknibúnaður hefur skyndilega verið boðinn til sölu erlendis, segir El Baradei, annað hefur horfið. Hann óskar upplýsinga um afdrif útbúnaðarins. Bandaríkjamenn fluttu úr Írak næstum tvö tonn af auðguðu úrani fyrr á árinu, en alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir staðfest að að enn séu 550 tonn af geislavirkum efnum í landinu, og ekki sé hugað nægilega að öryggismálum í tengslum við efnin. El-Baradei telur alvarlegt ástand að skapast vegna eftirlitsleysis og sögusagnir séu á kreiki um að þjófar hafi hellt niður geislavirkum efnum og úraníum liggi þar sem auðvelt er fyrir alla að ná í það. El Baradei minnti öryggisráðið á að Írökum bæri enn skylda til að skýra frá öllum breytingum varðandi kjarnorkumál. Slíkt hafi ekki verið gert síðan í mars í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×