Innlent

Rúmlega 130 börn bíða greiningar

Um 80 börn á þroskahömlunarsviði og 50 - 60 börn á einhverfusviði bíða eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. "Hluti þeirra er búinn að fá úthlutað plássi á næstu sex mánuðum en það bætir alltaf í," sagði Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður stöðvarinnar. "Við höfum því kosið að nálgast þetta frekar út frá biðtímanum. Þannig að ef grunnskólabarn er grunað um þroskahömlun, þá erum við að tala um biðtíma allt upp í tvö ár." Nýtt húsnæði í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem er 100 fermetrar að stærð og var tekið í notkun í gær, breytir mjög miklu fyrir starfsemina, að sögn Stefáns. Þar verður fagsvið þroskahamlanna starfrækt, svokölluð snemmtæk íhlutun, sem felst í vinnu með ung, fötluð börn og foreldra þeirra. Það rými sem losnaði verður nýtt til bættrar aðstöðu fyrir einhverf börn. Þá rýmkast einnig um iðjuþjálfun, sem búið hefur við mjög þröngan kost. "Við fáum í vaxandi mæli börn með einhverfu sem eru í mjög markvissri þjálfun," sagði Stefán. "Þjálfarar, foreldrar, aðstandendur og aðrir sem koma að máli barnsins horfa þá á okkar þjálfara og læra." Spurður hvað ylli fjölgun barna sem þyrfti á aðstoð Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar að halda sagði Stefán að hvað varðaði einhverfu væri fjölgun á alþjóðamælikvarða viðurkennd. Menn veltu vöngum yfir hvort það væru einhverjir þættir í umhverfinu sem ættu þar hlut að máli. Að hluta til kæmi til meiri skilningur og betri greiningaraðferðir, sem væri forsenda þess að hægt væri að beita sérhæfðum aðferðum snemma, til þess að koma í veg fyrir eða minnka vandamál einstaklinganna seinna meir. "Sama máli gegnir um þroskahömlum. Hjá fullorðnum þroskaheftum, og einkum þeim sem standa býsna vel innan þroskahefta hópsins, er há tíðni af geðrænum erfiðleikum á fullorðinsárum. Menn leggja því upp með að gera þessa vönduðu greiningu, leita þá ekki bara að nafni á fötluninni heldur getu barnsins í umhverfinu og finna geðræn einkenni snemma, séu þau til staðar. Það er aukin áhersla, með aukinni þekkingu, á að við séum raunverulega að reyna að vinna forvarnarstarf til framtíðar." Reikna má með að um 80 börn í hverjum árgangi standi það höllum fæti í almennri greind, að hætta sé á þroskahömlun, að því er Stefán sagði. Hvað varðar aðrar þroskaraskanir má gera ráð fyrir öðrum eins hóp að minnsta kosti í hverjum árgangi. Um 20 - 25 börn í hverjum árgangi greinast með einhverfu eða einhverfueinkenni. Niðurstaða nefndar á vegum félagsmálaráðuneytisins, sem lá fyrir í fyrra gerði ráð fyrir að fjölga þyrfti sérfræðingum Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar um 8 stöðugildi á næstu fjórum árum til að anna þörfinni. Síðan hefur stöðin fengið eitt og hálft stöðugildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×