Innlent

Konungur Kvosarinnar

MYND/NFS
Umtalsverðar breytingar verða á lífi og högum Davíðs Oddssonar þegar hann verður utanríkisráðherra. Ekki er nóg með að hann skipti um starf heldur þarf hann að sækja vinnu í annað hverfi en hann hefur vanist. Það vill nefnilega svo merkilega til að Davíð hefur varið námsárunum og starfsævinni, svo að segja, á sömu torfunni í borginni. Hann hefur í raun ekki þurft að sækja vinnu lengra en spölkorn frá Lækjartorgi. Það verða því að teljast nokkur viðbrigði fyrir hann að þurfa að fara alla leið upp á Rauðarárstíg eftir 15. september. Orðið miðbæjarrotta er gjarnan notað yfir fólk sem sem ver lífi sínu í miðbæ Reykjavíkur. Óhætt er að nota það hugtak um Davíð, þó að hann hafi lengst af búið í Vesturbænum og síðar Skerjafirði. Konungur Kvosarinnar á líka vel við. Vinnustaðir Davíðs Davíð stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík sem er til húsa í Lækjargötu sjö og nærliggjandi húsum. Þaðan lá leiðin í Vatnsmýrina, í lagadeild Háskóla Íslands. Samhliða laganámi var Davíð leikhúsritari hjá Leikfélagi Reykjavíkur sem þá hafði aðsetur í Iðnó og síðar varð hann þingfréttaritari Morgunblaðsins og hafði aðstöðu jafnt í Alþingishúsinu við Austurvöll sem og höfuðstöðvum blaðsins í Aðalstræti. Einnig vann hann um skeið hjá Almenna bókafélaginu en skrifstofur þess voru í Austurstræti. Eftir að laganáminu lauk vann Davíð hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur, fyrst sem skrifstofustjóri en síðar framkvæmdastjóri. Sjúkrasamlagið var í Tryggvagötu. Í íhlaupum annaðist hann framkvæmdastjórn Listahátíðar Reykjavíkur sem hafði aðstöðu í Gimli á Bernhöftstorfunni. Davíð varð borgarfulltrúi í Reykjavík árið 1974 og borgarstjóri 1982. Í borgarstjóratíð hans voru skrifstofur borgarinnar í Pósthússtræti en fluttust í nýbygginguna í Tjörninni 1992 og þangað sótti hann borgarstjórnarfundi síðustu tvö árin. 1991 var Davíð kosinn á þing og varð forsætisráðherra og urðu vinnustaðir hans þinghúsið og Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Það eru tímamót í lífi Davíðs Oddssonar. Hann tekur við nýju starfi og flytur á nýjan stað. Í annað hverfi. Regluleg hlaup yfir Lækjartorg heyra sögunni, leiðin í þingið verður lengri. Mannlífsflóran í Kvosinni breytist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×