Lífið

Þetta var mjög óraunverulegt

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir því ítalska í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í kvöld. Forsvarsmenn Knattspyrnusambands Íslands stefna að því að bæta áhorfendametið á vellinum sem var sett árið 1968 þegar Valur gerði markalaust jafntefli við portúgalska stórliðið Benfica í Evrópukeppninni. Þá mættu 18.243 áhorfendur og seldist m.a. upp í stúku á 55 mínútum. Sigurður Dagsson stóð þá á milli stanganna í Valsmarkinu og man vel eftir þessum degi. "Þetta var góðviðriðsdagur og ótrúleg stemning. Þetta var bara mjög óraunverulegt," segir Sigurður, sem átti stórleik í markinu.  "Við héngum náttúrlega á þessu jafntefli en þetta var rosalega gaman. Það er bara orðið svo langt síðan að maður vill helst ekki trúa því." Í liði Benfica var kjarninn úr liði Portúgal sem hafði staðið sig vel í heimsmeistarakeppninni tveimur árum áður. Þar var stórstjarnan Eusebio fremst í flokki. "Það er mjög eftirminnilegt að þegar þeir komu út á völl eftir hálfleikinn þá þyrptust fleiri hundruð krakka inn á völlinn og eltu Eusebio út um allt," segir Sigurður. "Þetta var ótrúlegt dæmi sem myndi náttúrlega ekki sjást í dag. Hann var bara að leika við krakkana, gaf þeim eiginhandaráritanir og hékk í markinu. Síðan þurfti að hreinsa völlinn." Sigurður segir að stuðningur áhorfenda hafi verið ómetanlegur í leiknum og hafi átt sinn þátt í því að ná þessum frábæru úrslitum. Síðari leikurinn tapaðist síðan 8-1 í Lissabon og skoraði Hermann Gunnarsson mark Valsmanna. KSÍ hefur boðið leikmönnum Vals sem spiluðu gegn Benfica á völlinn í kvöld og verður Sigurður á meðal þeirra. Vonast hann til að endurlifa þó ekki væri nema brot af tilfinningunni sem fylgdi því að spila leikinn fræga fyrir 36 árum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.