Innlent

Uppskera kartaflna yfir meðallagi

Allt stefnir í að kartöfluuppskera verði yfir góðu meðallagi, segir Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði á Landi. Mánuður er liðinn frá því að fyrstu kartöflurnar komu á markað. Sigurður Reynhaldsson, innkaupastjóri matvöru hjá Hagkaupum, segir íslenskar kartöflur alltaf vinsælli en þær erlendu fyrst þegar þær komi á markað og hægt sé að kaupa kartöflur samdægurs uppskeru. "Það er helst í bökunarkartöflum sem menn velja innfluttar enda eru þær miklu stærri og girnilegar sem bökunarkartöflur. En til að sjóða til dæmis með ýsunni eru þær íslensku miklu betri." Fleiri verslunarrekendur tóku undir vinsældir íslenskra kartaflna og segir Guðmundur Óli Ómarsson, markaðsstjóri Nóatúns að samið hafi verið beint við bónda sem taki upp nýjar kartöflur fyrir þá daglega. Sigurbjartur segir að nokkrir tugir bænda rækti kartöflur á markað og samkeppnin sé mikil. Á síðustu sex til átta árum hafi verð til framleiðenda lækkað um 30 til 40% prósent. "Helsta vandamál okkar er að kaupendurnir eru í rauninni aðeins tveir til þrír. Samkeppnin í smásölunni er það mikil. Okkur finnst þeir oft mjög harðdrægir og verðið hefur lækkað á undanförnum árum án þess að það sjáist í verslunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×