Erlent

Kólígerlar lífsseigari en talið

Greint er frá því í Danmörku að samkvæmt rannsóknarverkefni sem þar fór fram eru kólígerlar í vatni mun lífsseigari en áður var talið. Hefur hingað til þumalputtareglan verið sú að gerlar af þessari tegund lifa ekki í drykkjarvatni lengur en nokkra daga en Danirnir hafa uppgötvað að bakteríurnar geta þrifist margar vikur ef aðstæður eru réttar. Víða í landinu glíma stjórnvöld við mengað drykkjarvatn og líður ekki sumar án þess að einhvers staðar verði vart við kólígerla af einhverri tegund. Sem dæmi hafa íbúar í Veilje lengi orðið að láta sér lynda að drekka vatn sem ekki þykir sem best fallið til manneldis vegna mengunar. Þess ber að geta að kólígerlar eru sjaldan hættulegir fólki en fjöldi þeirra og útbreiðsla gefur yfirvöldum tilefni til að vera betur á varðbergi en verið hefur. Til þeirra teljast saurgerlar frá mönnum og dýrum sem berast á tíðum í ár og læki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×