Erlent

Olíuverð hækkar enn

Olíuverð hækkaði enn á ný í gær og er nú komið í 39 dollara og 14 sent, sem er hækkun um 1,95 prósent. Meginástæðan er sú að skemmdarverk voru unnin á olíuleiðslum í Írak sem gerði það að verkum að olíuframleiðslan þar minnkaði um helming. Hugsanlegt gjaldþrot rússneska olíurisans Yukos hefur einnig áhrif, en það myndi einnig þýða minni framleiðslu. Að auki hafa ráðherrar OPEC-ríkjanna látið í það skína, að framleiðsla verði ekki aukin í ágúst eins til stóð, þar sem verðið á olíufatinu hefur lækkað nokkuð frá því að sú ákvörðun var tekin. Í Nígeríu, sem er stór olíuútflytjandi, hótar verkalýðsfélag starfsmanna í olíuiðnaði verkfalli, verði laun félagsmanna ekki hækkuð. Allt hefur þetta áhrif til hækkunar og segja sérfræðingar hættu á að áframhaldandi óróleiki í Írak geti þvingað verð á olíufatinu yfir 40 dollara á ný. Hærra olíuverð þýðir ekki einungis dýrari bensíndropa fyrir neytendur, heldur hefur það áhrif á efnahagsþróun á heimsvísu, veldur hærri verðbólgu og í kjölfarið vaxtahækkunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×