Erlent

Hersveit Bandaríkjamanna heim

Sú hersveit Bandaríkjamanna sem lengst hefur dvalið í Írak hélt heim á leið í dag. Hershöfðingjar deildarinnar eru sannfærðir að aðgerðirnar í landinu verði að lokum metnar að verðleikum og í ljós muni koma að fólkið í Írak hafi fengið frábært tækifæri. Um 20.000 bandarískir hermenn halda heim á leið í dag eftir langa dvöl í Írak sem framlengd var um þrjá mánuði vegna aðgerða skæruliða í suðurhluta landsins. Herdeildirnar sem halda heim í dag sáu um öryggisgæslu í Bagdad, höfuðborg Íraks. Dvöl hermanna deildanna í landinu hefur nú staðið í fimmtán mánuði en í apríl sl. var ákveðið að framlengja hana um þrjá mánuði vegna aukinnar hörku í aðgerðum skæruliða. Hermennirnir voru kvaddir við hátíðlega athöfn í dag á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, 4. júlí. Á sama tíma og öryggissveitir hverfa frá Írak eru öryggissveitir í viðbúnaðarstöðu í öllum helstu borgum Bandaríkjanna. Þarlend stjórnvöld hafa sent löggæslumönnum þau fyrirmæli að vera á varðbergi á meðan hátíðarhöldum stendur vegna þjóðhátíðardagsins. Ekki hafa borist sérstakar hótanir frá hryðjuverkasamtökum en eigi að síður verður öryggisgæsla í algeru hámarki í dag. Leitað verður í bakbokum og töskum fólks á helstu mannamótum og óeinkennisklæddir lögreglumenn verða í þúsundatali á stærstu viðburðum þjóðhátíðardagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×