Erlent

Múrinn að hluta ólöglegur

Allir hrósa sigri eftir að hæstiréttur Ísraels skipaði svo fyrir að hluti af öryggismúr Ísraelsmanna yrði fluttur. Dómararnir sögðu réttmætt að reisa varnarmúr en að gæta yrði hófs, ekki mætti brjóta gróflega á Palestínumönnum. Hæstiréttur í Ísrael úrskurðaði í morgun að flytja yrði um 40 kílómetra langan kafla öryggismúrsins, en byggingu þess hluta var hætt þegar í mars. Rökstuðningurinn er á þá leið, að 35 þúsund manns myndu finna fyrir afleiðingum múrsins þar sem til stóð að reisa hann. Múrinn hefði til að mynda skilið bændur frá búfé og ekrum, og almenning frá fjölskyldum, atvinnu og skólum. Bæði Palestínumen og Ísraelsmenn líta svo á, að þeir hafi sigrað. Dómstóllinn segir múrinn út af fyrir sig löglegan, sem Ísraelsmenn eru sáttir við, og segja þar með að öryggi borgaranna sé ekki í hættu og að unnt verði að halda hryðjuverkamönnum úti. Hæstiréttur lætur hins vegar breyta staðsetningu múrsins, sem Palestínumenn líta á sem sigur. Öruggt má telja að dómurinn verði ekki til þess að lægja öldurnar vegna öryggismúrsins, heldur hefjist nú nýr kafli pólitískrar baráttu um réttmæti hans. Niðurstaða Hæstaréttar veitir fordæmisgildi, en tuttugu önnur mál af sama meiði eru fyrir ísraelskum dómstólum, og má vænta þess að niðurstaðna þeirra mála sé beðið með nokkurri eftirvæntingu. Að auki mun alþjóðadómstóllinn í Haag fjalla um múrinn eftir tíu daga, en Sameinuðu þjóðirnar leituðu afstöðu dómstólsins til lögmætis múrsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×