Innlent

Skráningargjöldin hækkuð

Frumvarp menntamálaráðherra, um að hækka skrásetningargjöld ríkisháskólanna, var samþykkt á Alþingi í dag. Skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar verður afgreitt í kvöld en að fundi loknum fara þingmenn í jólaleyfi. Samfylkingin sakaði ríkisstjórnina um að keyra ýmis mál í gegn í dag sem hækkuðu þjónustugjöld og fjármögnuðu þannig skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Þannig var samþykkt í dag að hækka bifreiðagjöld og aukatekjur ríkissjóðs svo sem vegna útgáfu ökuskírteina og vegabréfa. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, sagði að best væri að lýsa aðferð ríkisstjórnarinnar þannig að leiðin til þess að lækka skattin lægi í því að hækka hann áður. Stærsta mál dagsins sem þingmenn afgreiða fyrir þetta jólaleyfi er skattalækkunarfrumvarpið, en annað umdeilt mál var frumvarp um hækkuð skrásetningargjöld í háskólanámi sem eiga að skila 140 milljónum. Það var samþykkt, en þau Kristinn H. Gunnarsson og Dagný Jónsdóttir úr Framsóknarflokki sátu þó hjá. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna, sagði Sjálfstæðisflokkinn verða ágengt eins og venjulega. Þó að ekki væri verið að setja á skólagjöld beinlínis, væri augljós að Framsóknarflokkurinn væri að beygja sig undir vilja Sjálfstæðismanna. Litla íhaldið væri að lúta í gras fyrir stóra íhaldinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að ríkið væri stöðugt að auka framlög sín til háskólanna. Hún sagði ekki á dagskrá að taka upp skólagjöld í grunnnámi háskólana. Þarna væri hinsvegar um skráningargjöld að ræða. Hún kallaði Samfylkinguna stóra afturhaldið og vinstri græna litla afturhaldið. Hún sagðist mótmæla því að um dulbúin skólagjöld væri að ræða. Um væri að ræða skráningargjöld sem meðal annars hefðu verið við lýði í stjórnartíð Alþýðubandalags.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×