Innlent

Eru að drukkna í óskum um kaup

Íslendingar, sem búa í Bandaríkjunum eru að verða gráhærðir yfir kvabbi, að heiman, um að kaupa þetta og kaupa hitt. Það er lágt gengi dalsins, sem veldur þessu fjarstýrða innkaupaæði. Lágt gengi dalsins hefur valdið því að það er mjög hagkvæmt að kaupa bandarískar vörur, hér á landi. Eða ætti að vera það. Mörgum þykir sem lækkanir á dalnum skili sér ekki jafn fljótt út í verðlagið og hækkanir. Því hafa þúsundir manna tekið þann kostinn að hafa samband við ættingja eða vini, í Bandaríkjunum, og beðið þá um að sýsla fyrir sig. Viðkomandi ættingjar og vinir hafa svo verið eins og útspýtt hundskinn út um allan bæ, að kaupa inn. En sumir eiga fleiri vini en aðrir, og það á til dæmis við þá sem vinna fyrir íslensk fyrirtæki, í Bandaríkjunum. Margir vinnufélagar hafa bæst við ættingjana. Þannig var það til dæmis hjá Marel, sem hefur mikið umfang, bæði hér heima og í Bandaríkjunum. Þar þykir starfsfólkinu vænt hvort um annað og snýst gjarnan hvort fyrir annað, í hvoru landinu sem er. Innkaupabeiðnirnar til Bandaríkjadeildarinnar voru hinsvegar orðnar svo miklar, að starfsmenn þar urðu að biðjast vægðar, því þeir hefðu ekki tíma til að sinna sínu starfi, lengur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×