Innlent

Hætti að reykja og gekk Kínamúrinn

Huldar Breiðfjörð ákvað að ganga Kínamúrinn allan vegna þess að hann hætti að reykja. Hann skrifaði bók um gönguförina og fólkið sem hann kynntist. Hann segist ekki enn vera búinn að átta sig á Kína. Huldar Breiðfjörð sló í gegn með bók sinni Góðir Íslendingar sem kom út fyrir nokkrum árum. Hún fjallaði um ferðalag hans hringinn í kringum landið og kynni miðbæjarrottu af fólkinu í landinu. En ferðalag hans til Kína hófst á því að hann hætti að reykja. Þá tók Huldar göngutúra upp sem sport sem var svo komið út í vitleysu, að hans eigin sögn, þegar hann var farinn að ganga 4-5 tíma í einum spreng um borgina. Hann velti þá fyrir sér hvort ekki væri hægt að gera göngurnar meira spennandi og datt þá Kínamúrinn í hug. Í kjölfarið fékk hann múrinn og Kína á heilann og ákvað svo að skella sér á þetta.  Huldar segist hafa lært eins og hann gat í tungumálinu áður en hann fór út en gerði sig skiljanlegan ýmist með skrifuðum setningum eða látbragði. Reyndar er mikið ólæsi í Kína og því lent Huldar stundum í vandræðum en látbragðið skildist þó yfirleitt að lokum, t.a.m. með því að setja báðar hendur flatar undir annan vangann þegar hann óskaði eftir svefnplássi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×