Innlent

Samgöngur til Eyja í lamasessi

Samgöngur til Vestmannaeyja eru í lamasessi og þær þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar segir Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins. Samgönguráðherra segir að niðurstöðu um hugsanlega hafnargerð í Bakkafjöru sé að vænta eftir tvö ár. Samgöngur til Vestmannaeyja voru til umræðu utandagskrár á Alþingi í dag. Fram kom að 20% áætlaðra flugferða til eða frá Vestmannaeyjum árið 2000 féllu niður. Flugsamgöngur eru ekki tryggðar af veðurfarsástæðum. Herjólfur fer aðeins einu sinni á dag þrjá virka daga og kom fram í máli Hjálmars Árnasonar að lágmarksþjónusta hlyti að vera tvær ferðir á dag. Nýtt útboð standi fyrir dyrum og þar munu forsendur væntanlega verða endurskoðaðar. Hann sagði fyrirtæki í sjávarútvegi ekki eiga kost á því að koma vörum af sér til útflutnings, m.a. vegna plássleysis í Herjólfi og takmarkaðra ferða Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var til svara. Hann sagði ferðum Herjólfs hafa verið fjölgað um 42% frá því Samskip tóku við rekstri skipsins. Þjónustan hefði stóraukist. Hann benti á að verið væri að byggja nýja flugstöð á Bakkaflugvelli sem tekin yrði í notkun á næsta ári. Og í Bakkafjöru er hugað að hafnargerð en undirbúningsrannsóknartíminn tekur líklega a.m.k. þrjú ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×