Innlent

Þrjú hross drápust úr miltisbrandi

Þrjú hross hafa drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Bærinn hefur verið girtur af og öllum sem komið hafa nálægt hrossunum gefin sýklalyf. Miltisbrandur er bráðdrepandi baktería. Sjónarhóll er eyðibýli á Vatnsleysuströnd þar sem hross og kindur hafa verið geymd innan girðingar. Fyrsta hrossið drapst síðastliðinn fimmtudag og var það urðað þar sem ekki lék neinn grunur á sýkingu. En þegar tvö hross drápust síðastliðinn sunnudag var því fjórða og síðasta lógað og sýni send til greiningar í Tilraunastöðinni á Keldum sem staðfesti að hrossin hefðu drepist úr miltisbrandi. Hræin af hrossunum verða brennd á staðnum. Miltisbrandur er stórhættuleg baktería. Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnarsviði, segir hana geta valdið mjög alvarlegum sjúkdómum bæði í mönnum og dýrum og því full ástæða að vera á varðbergi. Sóttvarnarlæknir hefur haft samband við þá sem hafa komist í snertingu við hrossin sem drápust og gefið þeim lyf í forvarnarskyni. Miltisbrandur kemur oftast upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn. Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða éta mengað kjöt- og beinmjöl. Smit frá einu dýri til annars eru sjaldgæf og sjúkdómurinn smitast ekki manna í milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir slíkra dýra eru í mestri hættu á smiti. Guðrún segir að engin hætta sé á faraldri og þeir sem hafi farið um svæðið séu ekki í neinni hættu
MYND/Vilhelm
MYND/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×