Erlent

Serbar sniðganga kosningarnar

Mikil spenna einkennir kosningar sem fram fara í Kósóvó í dag. Serbar sniðganga kosningarnar sem líklegt er að muni leiða til aðskilnaðar Kósóvó frá Serbíu. Kosningarnar í dag eru aðrar kosningarnar frá því að Sameinuðu þjóðirnar skilgreindu héraðið sem sérstakt verndarsvæðið. Tæknilega séð er Kósóvó ennþá hérað í Serbíu en Sameinuðu þjóðirnar tóku völdin þar í kjölfar stríðsátaka árið 1999. Þó að aðgerðir NATO hafi bundið enda á þjóðernishreinsanir og grimmdarverk er ástandið langt í frá gott. Fimmtíu prósenta atvinnuleysi er í héraðinu og það er háð fjárframlögum frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Átján þúsund friðargæsluliðar frá NATO halda uppi lögum í héraðinu og vegna kosninganna voru tvö þúsund til viðbótar sendir þangað. Níutíu prósent íbúa eru Albanar og þeir koma því til með að ráða úrslitum kosninganna. 1,4 milljónir kjósenda eiga rétt á að greiða atkvæði í kosningunum. Gert er ráð fyrir að flestir þeirra greiði einum af fjórum albönskum flokkum atkvæði sitt en þeir krefjast allir sjálfstæðis fyrir Kósóvó. Ibrahim Rugova er talin líklegasti sigurvegari kosninganna en hann er hófsamur þjóðernissinni. Serbar, sem eru fáir eftir í Kósóvó, ætla sér að sniðganga kosningarnar. Bæði forystumenn serbneskra stjórnmálaflokka, sem og forsvarsmenn serbnesku réttrúnaðarkirkjunnar, hafa hvatt landa sína til að halda sig heima í dag. Kosningaeftirlitsmenn segja að á sumum kjörstöðum hafi ekki einn einasti Serbi sést en svo virðist sem sumir þeirra óttist jafnmikið gengi serbneskra ungmenna, sem hótað hafa þeim sem kjósa líkamsmeiðingum, og þeir óttast hugsanlegar aðgerðir Albana. Boris Tadic, forseti Serbíu, hvatti hins vegar landa sína til að gera skyldu sína og kjósa. Forystumenn Serba í Kósóvó segja öryggis Serba ekki nægilega vel gætt þar. Hundrað og áttatíu þúsund Serbar flýðu frá héraðinu í kjölfar stríðsins árin 1998 og 1999 og þeir sem eftir eru búa í svæðum sem sveitir NATO gæta sérstaklega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×