Erlent

Óvænt valdaafsal

Bráðabirgðastjórn tók við óvænt við völdum í Írak í gær, tveimur dögum fyrr en áætlað hafði verið. Paul Bremer, landstjóri Bandaríkjamanna í Írak, afhenti nýjum stjórnvöldum skjöl um valdaafsalið í lítilli athöfn í höfuðstöðvum hernámsliðsins í gærmorgun. Um tveimur klukkustundum síðar yfirgaf Bremer Írak. Hundruð Íraka hafa látið lífið í átökum víðsvegar um landið á síðustu vikum. Áttu tilræðin að trufla áform Bandaríkjastjórnar um valdaafsal sem tilkynnt var um seint á síðasta ári. Vonast er til að valdaskiptin hafi jákvæð áhrif á Íraka sem hafa orðið sífellt óvinveittari hernámsliðinu. Bandarískir embættismenn vonast til að Írakar muni trúa því að nú stjórni þeir landinu og það muni skila sér í minni átökum. Bráðabirgðastjórn Íraka var svarin í embætti sex klukkustundum eftir valdaafsalið sem vestrænar ríkisstjórnir töldu nauðsynlegt skref í málefnum Íraks. Leiðtogar arabaheimsins lýstu hóflegri bjartsýni en lögðu áherslu á nauðsyn þess að Bandaríkjaher hyrfi frá Írak eins fljótt og auðið væri. George Bush Bandaríkjaforseti var staddur á leiðtogafundi NATO í Istanbúl og tók í hönd Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, eftir að valdaskiptin höfðu átt sér stað. Bush var á sunnudag kynnt að stjórn Allawi væri þess reiðubúin að taka við völdum í landinu. Bráðabirgðastjórn Íraks mun ekki verða við völd lengur en sjö mánuði en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að haldnar verði kosningar í landinu eigi síðar en 31. janúar næstkomandi. Völd bráðabirgðastjórnarinnar verða takmörkuð þrátt fyrir fullt sjálfstæði ríkisins og munu Bandaríkjamenn áfram sjá um öryggismál landsins. Um 155.000 hermenn eru staddir í Írak, þar af um 135.000 bandarískir. Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtar voru í gær hefur bjartsýni Íraka á betra líf framundan minnkað umtalsvert á síðastliðnum mánuðum. Þá telur meirihluti Bandaríkjamanna valdaskiptin nú séu merki um að ekki hafi tekist upp sem skyldi í Írak. Engu að síður leggja þrír fjórðu Bandaríkjamanna blessun sína yfir valdaafsalið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×