Enski boltinn

Skoraði fyrsta mark Brighton í deild þeirra bestu síðan 1983

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pascal Gross (lengst til vinstri) fagnar.
Pascal Gross (lengst til vinstri) fagnar. vísir/getty
Eftir þrjá leiki án þess að vinna og skora kom fyrsti sigur Brighton á laugardaginn. Nýliðarnir unnu þá 3-1 sigur á West Brom á heimavelli.

Það stefndi allt í markalausan fyrri hálfleik áður en Pascal Gross skoraði fyrsta markið á 45. mínútu. Þetta var ekki bara fyrsta mark Brighton á tímabilinu, heldur fyrsta mark Mávanna í efstu deild í 34 ár.

Gross bætti öðru marki við 48. mínútu og hann lagði svo þriðja mark Brighton upp fyrir Tomer Hemed. James Morrison minnkaði muninn fyrir West Brom en það breytti engu um úrslit leiksins.

Brighton keypti hinn 26 ára gamla Gross frá Ingolstadt fyrir 2,7 milljónir punda í sumar. Ingolstadt féll úr þýsku úrvalsdeildinni í fyrra en þrátt fyrir það átti Gross gott tímabil. Hann skoraði fimm mörk, gaf fjórar stoðsendingar og bjó til flest færi allra leikmanna deildarinnar, eða 95 talsins.

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

Manchester City tók Liverpool í bakaríið á Etihad. Rauða spjaldið sem Sadio Mané fékk hafði vissulega mikið að segja en City sýndi enga miskunn manni fleiri og hélt áfram að sækja þótt úrslitin væru löngu ráðin.

Hvað kom á óvart?

Brighton vann sinn fyrsta sigur í efstu deild síðan 1983 þegar liðið lagði ósigraða West Brom-menn örugglega að velli. Sterkur sigur hjá strákunum hans Chris Houghton og gefur þeim byr undir báða vængi í baráttunni sem fram undan er.

Mestu vonbrigðin

Liverpool byrjaði stórleikinn gegn City vel en var refsað fyrir einbeitingarleysi í vörninni um miðjan fyrri hálfleik þegar Sergio Agüero kom heimamönnum yfir. Eftir rauða spjaldið fór allt til fjandans hjá Liverpool. Vörnin var hriplek og réð ekkert við spræka sóknarmenn City. Liverpool hefur fengið á sig átta mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.


Tengdar fréttir

Breiðir út fagnaðarerindið í Manchester

Brasilíski framherjinn Gabriel Jesus heldur áfram að blómstra í liði Manchester City og skoraði tvö mörk í stórsigrinum á Liverpool um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×