Innlent

Of fá tilvik til að teljast marktæk

25 manns létust á síðasta ári vegna háþrýstingshjartasjúkdóms, en það eru fimm sinnum fleiri en árið áður.

Árið 2006 létust sextán manns úr sjúkdómnum, en það er mesti fjöldinn á tímabilinu 1996 til 2009, fyrir utan síðasta ár. Á því árabili deyja að meðaltali um tíu manns á ári vegna háþrýstingshjartasjúkdóms. Eru þessar tölur fengnar frá Hagstofu Íslands.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir ekkert benda til þess að dauðsföllum af völdum háþrýstingshjartasjúkdóms sé að fjölga og þau séu svo fá að tölurnar séu vart marktækar.

„Þetta er engin breyting sem hægt er að draga nokkrar ályktanir af. Við erum búin að skoða þetta með okkar fólki og niðurstaðan er sú að þetta eru fá tilvik og fjölgun er lítil," segir Geir. „Við verðum að sjá þróunina á lengri tíma til að draga nokkrar ályktanir."

Þórarinn Guðnason hjartalæknir tekur í sama streng og Geir og telur tölurnar vera of lágar til að teljast marktækar. „Háþrýstingshjartasjúkdómur er mjög óljós greining," segir Þórarinn.

„Það þarf ekki annað en að læknir hafi sett þessa skilgreiningu oftar en sá sem gerði það á árinu áður. Þá kemur þessi tala út." Þá sé hópurinn of lítill til að vera tölfræðilega marktækur.- sv

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.