Leik lokið: Fram-Stjarnan 1-1 | Úr­slita­leikur um Evrópu­sæti um næstu helgi

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Örvar Eggertsson tryggði Stjörnunni jafntefli í kvöld en fékk líka færi til að skora sigurmarkið.
Örvar Eggertsson tryggði Stjörnunni jafntefli í kvöld en fékk líka færi til að skora sigurmarkið. vísir/Diego

Stjörnumönnum mistókst að tryggja sér Evrópusæti í Úlfarsárdalnum í kvöld en eftir 1-1 jafntefli við Fram er ljóst að það verður úrslitaleikur um Evrópusæti milli Stjörnunnar og Breiðabliks í lokaumferðinni.

Leikurinn fór hægt af stað enda mikið í húfi fyrir Stjörnumenn.

Framarar skoruðu tvisvar, en mörkin fengu ekki að standa. Á 30. mínútu skoraði Jakob Byström, en hann var rangstæður. Skömmu síðar skoraði Kennie Chopart, en markið fékk því miður ekki að standa. Kyle Mc Lagan reyndist þá brotlegur í teig gestanna.

Hættulegasta færi Stjörnunar kom á 42. mínútu þegar Andri Rúnar Bjarnason átti skot á markið en Þorri Stefán Þorbjörnsson varði frábærlega á marklínunni. 0-0 staðan og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Fred Saraiva braut ísinn snemma í seinni hálfleik með frábæru skoti fyrir utan teig. 1-0 fyrir heimamönnum.

Skömmu síðar jafnaði Örvar Eggertsson metin fyrir Stjörnuna með laglegri afgreiðslu eftir fyrirgjöf frá Alpha Conteh.

Bæði lið sóttu hart en því miður tókst hvorugu liði að bæta við marki og niðurstaðan því 1-1 jafntefli í kvöld.

Stjarnan mætir Breiðablik í lokaumferð Bestu deildar karla og verður það hreinn úrslitaleikur um þriðja sætið og þar af leiðandi evrópusæti. Breiðablik verður að vinna með tveimur mörkum og má því búast við hörku leik á Samsungvellinum í Garðabæ.

Atvik leiksins

Það var í raun ekkert sem stóð sérstaklega upp úr. Við fengum hins vegar að sjá Emil Atlason, leikmann Stjörnunar, og Vuk Oskar Dimitrijevic, leikmann Fram, spila aftur eftir löng meiðsli.

Stjörnur og skúrkar

Fred Saraiva var flottur á miðjunni í dag fyrir Framara. Hann skoraði líka frábært mark úr langskoti.

Örvar Eggertsson var líflegur á hægri kanti Stjörnunar. Hann skoraði eitt mark í kvöld en hefði hæglega getað bætt við öðru.

Hvað get ég sagt? Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunar, og Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Fram, eru menn leiksins hjá mér í dag. Báðir áttu frábærar vörslur og komu þeir í veg fyrir að frekari mörk fengu að líta dagsins ljós.

Stemning og umgjörð

Það var lífleg stemning hér á Lambhagavelli. Það heyrðist ágætlega beggja megin í stúkunni en stuðningsmenn létu ekki vanta trommurnar í kvöld.

Dómarar

Þórður Þorsteinsson Þórðarson var með flautuna í kvöld. Með honum voru Egill Guðvarður Guðlaugsson og Bergur Daði Ágústsson. Fín dómgæsla í dag að mínu mati. Ég er ekki alveg viss með dóminn í seinna markinu sem var tekið af Fram. Virtist vera ansi harður dómur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira