Fleiri fréttir

Flugskeytum skotið á landnemabyggð

Palestínskir uppreisnarmenn skutu í morgun þremur flugskeytum að íbúabyggð Ísraelsmanna við Gaza-ströndina. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast í árásunum. Í gær var einn Palestínumaður drepinn við Gaza og í kjölfarið skutu palestínskir uppreisnarmenn nokkrum sprengjum að byggðum gyðinga.

Sprenging í kolanámu í Kína

Um fimmtíu verkamenn eru innilokaðir eftir að gassprenging varð í kolanámu um 200 kílómetra frá Peking, höfuðborg Kína, í morgun. Ekki er vitað um orsakir slyssins eða hvernig mennirnir eru á sig komnir en unnið er að björgunaraðgerðum.

Embættismaður skotinn til bana

Háttsettur embættismaður í olíumálráðuneyti Íraks var skotinn til bana í Bagdad í morgun. Atburðurinn átti sér stað þegar maðurinn var að ganga út af heimili sínu og á leið í vinnuna. Engin samtök hafa lýst verknaðinum á hendur sér en unnið er að rannsókn málsins.

Regnskógar við Amason hverfa hratt

Regnskógarnir við Amasonfljótið minnka nú hraðar en nokkru sinni fyrr. Frá ágúst 2003 til sama mánaðar árið 2004 voru alls 26 þúsund ferkílómetrar af skóglendi höggnir niður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá ríkisstjórn Brasilíu. Alls er nú búið að höggva fimmtung af öllu skóglendi við fljótið.

Vill aðgerðir gegn herskáum mönnum

Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur fyrirskipað hernum að gera allt sem þarf til þess að taka úr umferð Palestínumenn sem hafa skotið eldflaugum á landnemabyggðir gyðinga á Gaza-svæðinu. Átök á svæðinu undanfarna daga hafa stefnt þriggja mánaða gömlu vopnahléi Ísraels og Palestínumanna í hættu.

Hættir að niðurgreiða umskurð

Norska ríkið hefur hætt þáttöku í kostnaði við umskurð á múslímadrengjum. Umboðsmaður sjúklinga þar í landi óttast að það kunni að leiða til óvandaðra vinnubragða. Fram til þessa hafa múslímar aðeins þurft að greiða sem svarar 750 krónum fyrir að láta umskera syni sína. Nú þegar ríkið hefur hætt þátttöku í kostnaðinum þurfa þeir að greiða 100 þúsund krónur.

Fuglaflensuveira sé að breytast

Tíðni fuglaflensutilfella í Víetnam á þessu ári bendir til að veiran sé að breytast þannig hún geti smitast á milli manna. Við það eykst hætta á alheimsfaraldri sem getur kostað milljónir manna lífið.

Sýknaður af ákæru um háskaakstur

Breskur lögreglumaður hefur verið sýknaður af ákæru um að aka á 256 kílómetra hraða á þjóðvegi M-54. Lögreglumaðurinn viðurkenndi greiðlega að hann hefði ekið svo hratt enda höfðu starfsbræður hans radarmælt hann á þeirri ferð. Hann viðurkenndi einnig að hafa ekið á 192 kílómetra hraða á vegarkafla þar sem hámarkshraðinn var 100 kílómetrar.

Halonen sækist eftir endurkjöri

Tarja Halonen, forseti Finnlands, lýsti því yfir í dag að hún ætli að bjóða sig fram til endurkjörs í næstu forsetakosningum sem verða í janúar. Halonen, sem er 61 árs, hefur gegnt forsetaembættinu undanfarin fimm og hálft ár en kjörtímabilið er sex ár. Hún hefur verið afar vinsæl í skoðanakönnunum og þótt fylgi hennar hafi dalað aðeins, úr 61 prósenti í 53, þá er það engu að síður miklu meira en þeirra tveggja sem næstir koma, en þeir mælast báðir með um tuttugu prósenta fylgi.

Reynt að myrða súnnítaleiðtoga

Árásum á stjórnmála- og embættismenn í Írak linnir ekki, en í dag réðust uppreisnarmenn á heimili stjórnmálaleiðtoga súnníta í Mósúl í norðurhluta landsins og skutu bílstjóra hans og þrjá öryggisverði. Maðurinn, Fawaz al-Jarba, slapp hins vegar lifandi og náði að kalla til bandarískar hersveitir sem hröktu árásarmennina á brott, en alls létust sjö manns í þessum átökum.

Segja margnota bleiur ekki betri

400 þúsund tonn eru notuð af einnota bleium á ári hverju. Rannsókn breskra umhverfissamtaka hefur þó leitt í ljós að það er ekki endilega umhverfisvænna að nota margnota bleiur. Orkan sem fer í að þvo þær og þurrka auk þvottaefnisins sem fer út í náttúruna gerir það að verkum að samtökin telja það hafa álíka slæm áhrif á umhverfið og einnota bleiurnar.

Neitar aðild að blóðbaði

Nur-Pashi Kulayev, 24 ára gamall tsjetsjenskur smiður, neitaði í dag að eiga sök á blóðbaðinu í barnaskólanum í Beslan í Suður-Rússlandi í fyrra. Kulayev er sá eini árásarmannanna 30 sem hertóku barnaskólann sem náðist á lífi, en 330 manns dóu í skólanum, flestir í sprengingum árásarmannanna. Þar af var helmingurinn skólabörn.

Harðari aðgerðir gegn veiðiþjófum

Indversk stjórnvöld verða að grípa til harðari aðgerða til þess að stemma stigu við tígrisdýradrápum í landinu. Þetta segir nefnd sem skipuð var til þess að kanna ástand tígrisdýrastofnsins í landinu. Fréttir bárust af því í mars að veiðiþjófar hefðu hugsanlega drepið öll tígrisdýrin, eða 16-18 dýr, á verndarsvæði í vesturhluta landsins og var í kjölfarið skipuð nefnd til að fara yfir málið.

Lögregla skaut mann á götu úti

Lögreglumaður í bænum Larvik í Noregi skaut víetnamskan mann til bana í gær. Atburðurinn gerðist á aðalgötu bæjarins.

27% þreyttu öll samræmd próf

Aðeins 27 prósent tíundu bekkinga þreyttu öll sex samræmdu prófin en rúm 40 prósent þreyttu fimm próf. Aðeins tæp tvö prósent tóku ekkert samræmt próf. Yfir 90 prósent nemenda þreyttu próf í íslensku, ensku og stærðfræði en mun færri ákváðu að takast á við náttúrufræði, samfélagsgreinar og dönsku. Um þrjú hundruð nemar í níunda bekk tóku að minnsta kosti eitt samræmt próf.

Fékk alvarlegt hjartaáfall

Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra í Chile, fékk alvarlegt hjartaáfall í dag og var fluttur á sjúkrahús. Þetta hefur Reuters-fréttastofun eftir heimildarmanni sem er nátengdur fjölskyldu Pinochets. Einræðisherrann fyrrverandi hefur sætt ákærum fyrir grimmdarverk í stjórnartíð sinni, 1973-1990, en hann hefur verið heilsuveill undanfarin ár og fengið nokkur minni háttar hjartaáföll.

Ræddust við aftur eftir mánaða hlé

Bandarísk og norðurkóresk yfirvöld ræddust við á föstudaginn og þar hvöttu Bandaríkjamenn Norður-Kóreumenn til að hefja aftur viðræður við fimm ríki, þar á meðal Bandaríkin, um kjarnorkuvopnaáætlun sína. Frá þessu greindi einn talsmanna Hvíta hússins í dag. Viðræðurnar voru óformlegar og fóru fram í New York en slíkar viðræður hafa ekki farið fram síðan í desember.

Ók á lögreglumann í hálku

Það var enginn skortur á sönnunargögnum þegar ekið var á lögreglumann við skyldustörf í Minnesota í Bandaríkjunum í gær. Myndbandstökuvél í lögreglubílnum var í gangi og náði myndum af því þegar jeppi varð stjórnlaus í hálku og ók á lögreglumanninn á mikilli ferð. Hann hafði numið staðar til að aðstoða konu sem einnig hafði ekið út af í hálkunni.

Reyni að svæla fjölmiðla burt

Lögfræðingar rússneska auðjöfursins Míkhaíls Khodorkovskís segja að dómararnir séu að reyna að svæla af sér fjölmiðla með því að draga dómsuppkvaðninguna á langinn.

Ákærður fyrir Omagh-tilræði

Saksóknari á Norður-Írlandi hefur birt Sean Hoey sem talinn er vera félagi í hinum svonefnda Sanna írska lýðveldisher 61 ákæru fyrir margvísleg afbrot, þar á meðal sprengjutilræði í bænum Omagh árið 1998 sem kostaði 29 mannslíf.

Frekari andspyrna barin niður

Stjórnarherinn í Úsbekistan hertók síðastliðna nótt smáþorpið Korasuv og barði niður alla andspyrnu þar. Ekki er vitað um mannfall.

Heimsfaraldur tímaspursmál

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að aðeins sé tímaspursmál hvenær fuglaflensan breiðist út um allan heim. Veiran er talin geta smitast á milli manna en þó er hún ekki talin bráðsmitandi ennþá.

Chirac fær liðsstyrk

Leiðtogar Þýskalands og Póllands hvöttu í gær franska kjósendur að leggja blessun sína yfir stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins.

Biður nágrannana um hjálp

Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, skoraði á ríkisstjórnir nágrannalandanna að herða landamæragæslu svo að hryðjuverkamönnum tækist ekki að komast inn í landið. Í það minnsta þrettán manns féllu í árásum í Írak í gær.

Segja þúsund manns hafa farist

Mannréttindasamtök telja að úsbeskir stjórnarhermenn hafi drepið allt að eitt þúsund óbreytta borgara í átökum um helgina. Herinn handtók í gær leiðtoga herskárra múslima sem í fyrradag lýsti yfir íslamskri byltingu í bænum Korasuv.

Ólga á Gaza-svæðinu

Ísraelsk yfirvöld hafa hótað gagnaðgerðum eftir að herskáir Palestínumenn skutu sprengjum að landnemabyggðum á Gaza-svæðinu annan daginn í röð.

Nötraði eins og kirkjuklukka

Jarðskjálftinn mikli á annað dag jóla er sá stærsti sem mælst hefur í rúm fjörutíu ár, allt að 9,3 stig. Jarðvísindamenn segja nýjar mælingar sýna að jarðskorpan hafi hrist eins og hún lagði sig og vikum síðar hafi hún enn nötrað, ekki ósvipað og kirkjuklukka.

Heimsókn á Kínamúrinn

Forsetahjónin heimsóttu Kínamúrinn í morgun og gengu nokkurn spöl eftir honum í fallegu veðri. Múrinn er alls um 6700 kílómetrar að lengd og talið eitt mesta mannvirki heims. Múrinn á sér 2000 ára gamla sögu en mestur hluti hans sem enn stendur var reistur á 15. öld á tímum Ming keisaraveldisins.

Heimsóknir í fyrirtæki

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur lagt mikið uppúr stuðningi við íslensk fyrirtæki í Kínaferð sinni, eins og í mörgum fyrri ferðum. Hann fagnaði í dag undirritun 15 milljóna dollara samnings um viðhald á 11 Boeing 747 flugvélum Atlanta og Avion Group.

Ræddi mannréttindi við Hu Jintao

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands átti viðræður við Hu Jintao, forseta Kína, í Höll alþýðunnar í dag. Ólafur Ragnar sagði í samtali við fréttamenn eftir fundinn að viðræðurnar hefðu verið mjög gagnlegar. Honum hefði komið á óvart hversu vel forseti Kína hefði verið inni í málum þeirra íslensku fyrirtækja sem bar á góma í viðræðunum.

Viðskiptasamningar við Kína

Björgólfur Thor Björgólfsson undiritaði samstarfssamning Novator símafyrirtækis við kínverska símtækniframleiðandann Huawei, að viðstöddum forsetum Kína og Íslands, þeim Hu Jintao og Ólafi Ragnari Grímssyni, við hátíðlega athöfn í Höll alþýðunnar í Beijing í dag.

Hálfs árs fangelsi fyrir pyntingar

Bandarískur herdómstóll dæmdi í gær bandarískan hermann í sex mánaða fangelsi fyrir pyntingar á föngum við Abu Ghraib fangelsið. Hin 27 ára gamla Sabrina Harman tengdi meðal annars rafmangssnúrur við fanga og vöktu myndir af því óhug um alla heimsbyggðina. Saksóknarar kröfðust þriggja ára fangelsis en dómstólnum þótti hálft ár nægileg refsing.

Hryðjuverkaleiðsögn á heimasíðum

Uppreisnarmenn í Írak halda úti heimasíðum þar sem ungum mönnum er leiðbeint hvernig sé auðveldast að fremja hryðjuverk og valda sem mestu manntjóni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandaríska varnarmála ráðuneytisins sem send hefur verið til yfirmanna bandaríska hersins í Írak.

150 enn saknað eftir ferjuslys

Enn er 150 manns saknað eftir að ferja sökk í Bangladess á þriðjudag en alls voru 200 manns á ferjunni. Miklir vindar hafa verið á svæðinu og þykir björgunarmönnum ólíklegt að einhverjir finnist á lífi. Ferjuslys eru tíð í Bangladess og deyja hundruð manna á hverju ári vegna þeirra en fáar ferjur hafa þann björgunarbúnað sem æskilegur er og virða eigendur ferjanna í fæstum tilfellum veðurspár og reglur.

Tveir létust í sjálfsmorðsárás

Tveir írakskir lögreglumenn féllu í valinn í sjálfsmorðssprengjuárás nærri borginni Baiji í Írak í morgun. Alls hafa um fimm hundruð manns látist í árásum uppreisnarmanna í Írak það sem af er þessum mánuði.

Kúbverskur útlagi handtekinn

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa handtekið kúbverska útlagann Luis Posada Carriles sem sakaður er um að hafa skipulagt sprengjuárás á flugvél fyrir þremur áratugum, sem varð tæplega áttatíu manns að bana. Ríkisstjórn Fidels Castros hefur undanfarið gagnrýnt stjórnvöld í Bandaríkjunum fyrir tvískinnung í baráttunni gegn hryðjuverkum og krafist framsals Carriles til Kúbu.

Mannskætt bílslys á Nýja-Sjálandi

Átta manns létust og einn slasaðist alvarlega þegar sendibifreið með alls níu ferðamenn og vörubíll skullu saman á Nýja-Sjálandi í morgun. Ökumaður vörubílsins slasaðist þó ekki og var hann færður á lögreglustöðina þar sem hann var yfirheyrður. Mikil rigning var þegar slysið varð og því hált og segir lögreglan það hafa orsakað slysið. Þetta er alvarlegasta bílslys á Nýja-Sjálandi síðan árið 1995.

Erindrekum hleypt inn í Andijan

Stjórnvöld í Úsbekistan leyfðu í dag erlendum erindrekum að heimsækja borgina Andijan þar sem mikið mannfall varð í síðustu viku. Erindrekarnir fengu þó ekki að sjá sjálfan vígvöllinn. Islam Karimov, forseti Úsbekistans, segir að íslamskir öfgamenn beri ábyrgð á drápunum. Sjónarvottar segja hins vegar að stjórnarher landsins hafi skotið á óvopnaða óbreytta borgara sem hafi safnast saman til friðsamlegra mótmæla.

Zarqawi hafi viljað fleiri árásir

Bandaríska herstjórnin í Írak segir að hryðjuverkamaðurinn Abu Musab al-Zarqawi hafi fyrirskipað aukningu á bílasprengjuárásum á fundi sem haldinn var í Sýrlandi.

Sagður franskur götutónlistarmaður

Pólskur látbragðsleikari segir að dularfulli píanóleikarinn, sem skaut upp kollinum í Bretlandi fyrir mánuði, sé götutónlistarmaður frá Suður-Frakklandi.

Sprenging í námu í Síberíu

Tveggja námumanna er saknað eftir metangassprengingu í kolanámu í Síberíu í Rússlandi í morgun. Ellefu námuverkamenn voru nærri staðnum þar sem sprengingin varð en níu þeirra tókst að komast út og voru fjórir þeirra slasaðir. Alls voru 132 í kolanámunni og voru allir kallaðir út í kjölfar atvikins. Námuslys eru tíð í Rússlandi en að minnsta kosti 66 náumverkamenn létust í tveimur slysum í Síberíu fyrr á árinu.

Talibanaráðherra í framboð

Fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn talibana í Afganistan hefur ákveðið að bjóða sig fram til þings í kosningum sem fram fara í september. Wakil Ahmed Muttawakil gegndi embætti utanríkisráðherra Afganistans þegar talibanar fóru með völdin en var handtekinn þegar Bandaríkjamenn réðust inn í landið síðla árs 2001 í kjölfar árásanna 11. september.

Handsprengja hafi verið virk

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, greindi frá því í dag að handsprengja, sem kastað hefði verið í átt að George Bush Bandaríkjaforseta við hátíðahöld í Tíblisi í Georgíu í síðustu viku, hefði verið virk en ekki sprungið vegna bilunar. Handsprengjunni var varpað í átt að forsetanum þegar hann hélt ræðu á Frelsistorginu í Tíblisi og lenti hún um 30 metra frá honum.

Ítalskur hjálparstarfsmaður á lífi

Ítalskur hjálparstarfsmaður, sem rænt var í Kabúl í Afganistan á mánudaginn var, er á lífi. Frá þessu greindu afgönsk yfirvöld í dag. Mannræningjarnir höfðu samband við yfirvöld í gær og fékk hin 32 ára Clementina Cantoni, sem er í Afganistan á vegum alþjóðlegu hjálparsamtakanna CARE, að greina frá því í símann að ekkert amaði að henni.

Sjá næstu 50 fréttir