Erlent

Chirac fær liðsstyrk

Leiðtogar Þýskalands og Póllands hvöttu í gær franska kjósendur að leggja blessun sína yfir stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrársáttmála ESB fer fram í Frakklandi 29. maí næstkomandi. Á dögunum virtust fylgjendur plaggsins vera að sækja í sig veðrið en að undanförnu hafa andstæðingar þess spýtt í lófana. Í gær funduðu Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Alexander Kwasniewski, forseti Póllands, með Jacques Chirac Frakklandsforseta. Fundurinn átti að vera um ýmis mál en snerist á endanum nær eingöngu um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Á blaðamannafundi hvöttu þremenningarnir franska kjósendur eindregið til að greiða stjórnarskrársáttmálanum atkvæði sitt. Chirac sagði útilokað að samið yrði upp á nýtt um inntak sáttmálans ef þjóð sín hafnaði honum og Schröder sagði að Frökkum bæri siðferðisleg skylda til að segja já. Kwasniewski sagði aftur á móti að Frakkar þyrftu ekki að óttast að landið fylltist af Pólverjum í atvinnuleit ef þeir samþykktu plaggið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×