Fleiri fréttir

Slasaðist lítillega í bílveltu

Farþegi slasaðist lítillega þegar bíll valt á Suðurlandsvegi austan við Selfoss í gærkvöldi. Tveir voru í bílnum og var sá sem meiddist farþegi. Báðir voru í bílbelti. Að sögn lögreglu virðist sem ökumaðurinn hafi verið kominn of langt út í hægri vegkantinn og því sveigt snögglega til vinstri með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af þeim megin og hafnaði á hliðinni í skurði.

Kveikt í bátaskýli í Hafnarfirði

Kveikt var í bátaskýli í Hafnarfirði í gærkvöldi og brann það til kaldra kola. Skýlið stóð við Hvaleyrarhæð og var tilkynnt um eldinn á áttunda tímanum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en skýlið stóð í röð slíkra skýla og var gengið úr skugga um að eldur hefði ekki borist í þau.

Verðbólga hér næstminnst innan EES

Verðbólga á Íslandi er sú næstminnsta innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að verðbólgan á Íslandi miðað við samræmda neyluverðsvísitölu EES-landanna var 0,5 prósent en lægst var hún í Svíþjóð, eða 0,2 prósent. Yfir tólf mánaða tímabil var verðbólgan mest í Lettlandi, 6,5 prósent og 3,7 prósent í Lúxemborg.

Aldrei fleiri nýskráningar

Aldrei áður hafa fleiri nýnemar úr einum og sama árgangi skráð sig til náms í framhaldsskólum landsins en nú en nýlega fór fram í fyrsta sinn rafræn innritun sem gekk vel í alla staði.

Landaði fyrsta laxinum í Elliðaám

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri landaði fyrsta laxi sumarsins úr Elliðaánum í morgun. Borgarstjóri setti í laxinn, tveggja kílóa grálúsuga hrygnu, í fossinum og landaði henni eftir skemmtilega og snarpa viðureign. Talsvert af laxi er að ganga í árnar en í morgun höfðu tólf laxar farið í gengum teljarann.

Starfandi fólki fjölgar

Starfandi fólki á Íslandi fjölgaði um 1.2 prósent milli áranna 2003 og 2004 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Skiptist fjöldinn nokkuð jafnt milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Leita enn að lögfræðingum

Stjórnarandstaðan hefur ekki enn fengið lögfræðinga til að skoða hæfi forsætisráðherra til að fjalla um sölu Búnaðarbankans. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar fyrir hádegið að verið væri að leita að lögfræðingum til að skoða málið og að búist væri við að þeir hæfu vinnu sína fljótlega.

Gill sleppt á laugardag

Hæstiréttur fjallar ekki um kæru Pauls Gills vegna gæsluvarðhalds sem hann var úrskurðaður í því að honum var sleppt á laugardag.

Kominn úr öndunarvél eftir bílslys

Ungi maðurinn sem fluttur var á gjörgæsludeild eftir bílslys í Öxnadal í síðustu viku, er kominn úr öndunarvél. Hann liggur þó enn á gjörgæsludeild. Fjórir ungir karlmenn voru í bílnum sem fór út af veginum, tveir létust en hinir tveir slösuðust alvarlega.

Ferðamennska fremur en hvalveiðar

Grænfriðungar halda áfram að hvetja Íslendinga að hefja ekki hvalveiðar að nýju og benda á að mun meiri tekjur fáist af ferðamennsku og hvalaskoðun en hvalveiðum. Þá vilja þeir að áhrif loftslagsbreytinga á jökla og fiskistofna verði könnuð.

Máttu ekki flytja til skólahald

Ákvörðun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að flytja allt skólahald Þjórsárskóla í Árnes hefur verið felld úr gildi vegna vanhæfis sveitarstjórnarmanna.

Vörubíll valt á hliðina í Ölfusi

Bílstjóri meiddist þegar vörubíll valt á hliðina við Nátthaga í Ölfusi í morgun. Verið var að sturta mold af bílnum þegar pallurinn seig á hliðina og bíllinni með. Ökumaðurinn kvartaði undan eymslum í hálsi og baki og eftir skoðun á heilsugæslustöðinni á Selfossi var hann fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til nánari rannsóknar.

Talin hafa skemmt fleiri bíla

Þrennt er í haldi lögreglunnar í Hafnarfirði grunað um skemmdarverk á nokkrum bílum. Tilkynnt var um reyk í Heiðmörk í morgun. Þegar að var komið kom í ljós að þar var kviknað í bíl og sást til fólks í fjarska sem talið var tengjast málinu. Þrennt var handtekið í kjölfarið og er það nú í haldi lögreglunnar, en eftir því sem fréttastofa Bylgjunnar kemst næst hefur fólkið ekki verið mjög ræðið.

Tæplega 50 ábendingar

Alþýðusambandi Íslands hefur borist tæplega 50 ábendingar um erlenda starfsmenn sem hugsanlega eru starfandi hér á landi án tilskilinna atvinnu- og dvalarleyfa.

Norrænir ríkisstarfsmenn funda

Árleg ráðstefna Samtaka ríkisstarfsmanna á Norðurlöndum hefst á Akureyri í dag. Á ráðstefnunni verða 50 fulltrúar samtaka ríkisstarfsmanna frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Helstu umfjöllunarefni verða annars vegar einkavæðing opinberrar þjónustu en hins vegar ríkið sem fyrirmyndaratvinnurekandi.

Bensínverð ekki verið hærra

Olíufélagið Esso hefur hækkað verð á 95 oktana bensíni um tvær krónur lítrann og hefur bensínverð ekki verið hærra hér á landi. Eftir hækkunina kostar lítrinn á 95 oktana bensíni 114,70 krónur á stöðvum með fulla þjónustu en algengt verð er 109,6 krónur í sjálfsafgreiðslu. Lítrinn af dísilolíu kostar 62,10 krónur með þjónustu en 57,10 krónur í sjálfsafgreiðslu. Hin olíufélögin hafa ekki enn fylgt á eftir.

LHÍ og Bifröst vinna saman

Félagsvísinda- og hagfræðideild Viðskiptaháskólans á Bifröst og leiklistardeild Listaháskóla Íslands gerðu á dögunum með sér samkomulag um að þróa með sér samstarf á sviði nemenda- og kennaraskipta, rannsókna og sameiginlegra verkefna. Markmiðið með samningnum er að nemendur beggja háskóla vinni saman að uppsetningu leiksýningar, allt frá listrænni útfærslu til fjárhagsáætlunar.

Bjóði fram undir eigin nafni

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hefur skorað á samfylkingarfélaga um allt land að beita sér fyrir því að Samfylkingin bjóði fram í sem flestum sveitarfélögum undir eigin nafni. Fundur kjrödæmisráðsins lýsir þungum áhyggum af þeim sívaxandi vanda sem stafar að atvinnulífinu vegna ruðningsáhrifa stóriðjustefnunnar.

Hringferðin hafin

Bjarki Birgisson og Guðbrandur Einarsson hófu í gærmorgun gönguferð sína, hringinn í kringum landið.

Kirkjudagar haldnir í annað sinn

"Meginmarkmið Kirkjudaga er að kynna kirkjuna," segir Stefán Már Gunnlaugsson, verkefnisstjóri Kirkjudaga. Kirkjudagar verða haldnir í annað sinn um helgina en stefnt er að því að gera dagana að föstum lið í kirkjustarfinu fjórða hvert ár.

Dregur úr aðild að stéttarfélögum

Aðild að stéttarfélögum fer minnkandi og reyndar er sífellt minna hlutfall af vinnumarkaði í stéttarfélögum. Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir að á hinum norðurlöndunum dragi úr þátttöku í stéttarfélögum, þar sé komin samkeppni milli stéttarfélaga með lággjaldastéttarfélögum.

Samkeppnisstaðan breytist ekki

Fiskútflytjendur telja að samkeppnisstaðan breytist ekki mikið þó að FL Group, Bláfugl og Flugflutningar renni saman. Níels Guðmundsson, framkvæmdastjóri Tros í Sandgerði, telur að samruni fyrirtækjanna þriggja valdi ekki jafn miklum áhyggjum og þróun gengisins.

Harður árekstur í Kópavogi

Harður árekstur varð á gatnamótum Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Beita þurfti klippum til að ná fólki úr annari eða báðum bifreiðunum. Ekki liggur fyrir hvort að slys urðu á fólki að svo stöddu en lögreglan er enn á vettvangi.

Ungmenni frædd um alnæmi

Þetta er fræðsla sem sífellt þarf að veita," segir Birna Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Alnæmissamtakanna á Íslandi. Fulltrúar samtakanna hittu nú eftir áramótin flesta 9. og 10. bekkinga á landinu og fræddu um alnæmi.

Mikil aukning á veltu dagvöru

Velta dagvöruverslana var 13 prósentum meiri í maí en í sama mánuði árið 2004, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, samkvæmt nýjustu mælingu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í tilkynningu frá Rannsóknarsetrinu segir að velta dagvöru hafi aldrei aukist jafn mikið á 12 mánaða tímabili síðan byrjað var að reikna smásöluvísitöluna árið 2001.

Kortanúmer héðan voru í hættu

Talið er að tölvuþrjótar í Bandaríkjunum hafi komist í kreditkortanúmer í allt að hálft ár áður en lokað var fyrir lekann. Á þriðja hundrað íslensk kortanúmer komust í hendur þjófanna og þurfa eigendur þeirra að fá ný kort.

Völdu ráðstefnu vegna mikilvægis

Þremenningarnir sem stóðu að mótmælunum á Nordica-hóteli og slettu grænleitu skyri yfir gesti og búnað á álráðstefnu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir svara ýmsum spurningum varðandi mótmælin. Þar segja þeir meðal annars að álráðstefnan hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þetta hafi verið ráðstefna leiðandi manna í áliðnaði og tengdri framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.

Valt við að sturta mold

Ökumaður vörubíls meiddist lítillega þegar bíll hans valt á hliðina þar sem hann var að sturta mold í pytt í grennd við Nátthaga í Ölfusi klukkan að ganga 10 í gærmorgun.

Hass og hraðakstur

Upp komu tvö fíkniefnamál um helgina á Sauðárkróki. Lögregla fann við reglubundið eftirlit með ökumönnum, annars vegar áhöld til neyslu efna og hins vegar lítilræði af tóbaksblönduðu hassi.

Rafmagnsbilun í Ólafsfirði

Rafmagnstruflanir stóðu í um klukkustund í Ólafsfirði frá klukkan fimmtán mínútur gengin í tólf á sunnudagskvöldið. Helgi Jónsson, verkstjóri hjá RARIK á Norðurlandi, segir háspennustreng fyrir hitaveitudælur hafa bilað og því hafi slegið út.

Skemmdir eftir árekstur á brú

Tveir bílar eru mikið skemmdir eftir að hafa rekist saman síðdegis á sunnudag á einbreiðri brú yfir Hoffellsá. Ökumenn og farþegar sluppu hins vegar við meiðsli, að sögn lögreglu á Höfn í Hornafirði. Í öðrum bílnum voru hjón með tvö börn á ferðalagi, en í hinum var ein kona.

Sumarlöng leit að klámi í tölvum

Lögreglan í Reykjavík vinnur enn að rannsókn tveggja mála tengdum misnotkun barna og barnaklámi sem upp komu um miðjan mánuðinn. Annar maðurinn er grunaður um að hafa misnotað og myndaðp fjögur stúlkubörn, en hinn var handtekinn og leitað hjá honum í alþjóðlegum aðgerðum Europol.

Sektaður fyrir sterasmygl

32 ára gamall maður var síðasta fimmtudag dæmdur til greiðslu 300.000 króna sektar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til að smygla hingað til lands ólöglegum sterum frá Danmörku árið 2003. Þá var manninum gert að greiða sakarkostnað upp á rúmar 800.000 krónur.

Borgin sýknuð af launakröfum

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær Reykjavíkurborg af kröfum heimilisfræðikennara um vangoldin laun upp á tæpar 700 þúsund krónur. Konan vísaði til samþykktar borgarráðs frá því í júní árið 1981 um að greiða bæri heimilisfræðikennurum tvær klukkustundir á viku fyrir matarinnkaup.

Úr öndunarvél eftir hermannaveiki

Sjúklingur með hermannaveiki á Landspítalanum er kominn af gjörgæsludeild og úr öndunarvél. Maðurinn greindist með veikina seinni hluta maímánaðar og hefur verið á gjörgæsludeild síðan, mjög veikur. Hann er á hægum batavegi. Tveir Íslendingar hafa látist úr hermannaveiki hér á landi á þessu ári og fimm greinst með veikina. Síðustu ár hafa að jafnaði tveir til þrír greinst með hermannaveiki sem er í raun svæsin lungnabólga.

Rannsókn á Baugi í fullum gangi

Rannsókn Ríkislögreglustjóra á Baugi er í fullum gangi þessa dagana. Jón Gerald Sullenberger, sem kærði Baug á sínum tíma, var yfirheyrður vegna málsins í dag.

Tekur hvalurinn æti frá þorski?

Hafa vaxandi hvalastofnar hér við land tekið það mikið úr fæðukeðjunni að þorskurinn fær ekki nægilegt æti? Sjávarútvegsnefnd Alþingis lagði þessa, auk fleiri spurninga, fyrir Hafrannsóknastofnunina á fundi í dag. Farið var yfir nýlega skýrslu Hafró um ástand þorsksstofnsins og forsendur fyrir veiðiráðgjöf stofnunarinnar.

Engar sættir í Garðasókn

"Ég sagði sem var, að sættir hefðu verið reyndar og ekki tekist," segir Matthías G. Pétursson, formaður Garðasóknar, en áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar hefur sent málsaðilum í deilumálinu í Garðasókn sáttatillögu.

Minna bil milli hvalveiðifylkinga

Formanni íslensku sendinefndarinnar á fundi Alþjóðahvalveiðráðsins telur að draga sé saman með fylkingum í afstöðunni til hvalveiða. Lögð verður fram tillaga á fundinum í Suður-Kóreu í dag um að hefja hvalveiðar í vísindaskyni.

Engin von á leyfi til hvalveiða

Íslenska hvalasendinefndin er nú þegar orðin vonlaus um að knýja fram leyfi til hvalveiða í atvinnuskyni á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Fundurinn hófst í Uslan í Suður-Kóreu í morgun.

Gill segist ekki atvinnumótmælandi

Paul Gill, mótmælandinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald eftir að hafa slett skyri á Nordica-hóteli, neitar því að hann sé atvinnumótmælandi. Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á laugardaginn og er í farbanni til 1. júlí.

Ekki nauðsyn að afturkalla leyfi

Skipulagsstofnun telur ekki nauðsynlegt að afturkalla starfsleyfi vegna álversins í Reyðarfirði nema nýtt umhverfismat gerbylti forsendunum fyrir því.

Ný höfn á Mjóeyri við Reyðarfjörð

Ný höfn, sem er að verða til á Mjóeyri við Reyðarfjörð, verður á næstu árum ein stærsta útflutningshöfn landsins. Fyrstu skipin leggjast þar að bryggju í næsta mánuði.

Bensín aldrei dýrara

Bensínlítrinn hefur aldrei verið jafn dýr hér á landi og nú er eftir síðustu verðhækkanir olíufélaganna. Gera má ráð fyrir að verð geti hækkað enn meira þegar fram á sumarið kemur.

Svik að afnema ekki holræsagjald

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn saka Reykjavíkurlistann um kosningasvik með því að afnema ekki holræsagjaldið, sem á sínum tíma var kynnt sem tímabundinn skattur. Þeir segja að R-listinn eigi ekki að hreykja sér af hreinsun strandlengjunnar heldur skammast sín.

Sjá næstu 50 fréttir