Innlent

Samkeppnisstaðan breytist ekki

Fiskútflytjendur telja að samkeppnisstaðan breytist ekki mikið þó að FL Group, Bláfugl og Flugflutningar renni saman. Níels Guðmundsson, framkvæmdastjóri Tros í Sandgerði, telur að samruni fyrirtækjanna þriggja valdi ekki jafn miklum áhyggjum og þróun gengisins. Níels segir að það skipti verulegu máli að samkeppni í flugfrakt sé virk þannig að hægt sé að fá flutninga á réttum kjörum. Það sé hagsmunamál allra að sem mestur útflutningur eigi sér stað með flugi og því sé sameining FL Group, Bláfugls og Flugflutninga bara einn þáttur í heildarmyndinni. "Við erum í erfiðri stöðu út af háu gengi íslensku krónunnar og mikilli samkeppni erlendis við aðrar vörur og framleiðslulönd þannig að þetta er aðeins eitt af mörgum sem við höfum áhyggjur af," segir hann. "Ef við verðleggjum okkur út af markaðnum verður svo sem ekki mikið að gera fyrir flutningsaðilana heldur og það er töluvert aðhald í því. Kostnaðurinn við að koma vörunni á markað má ekki vera ekki of hár," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×