Sport

„Ís­land í betra formi en við höfum sýnt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta.
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta. Vísir/Vilhelm

Dagur Sigurðsson býst við strembnum leik er hans menn í króatíska landsliðinu mæta Íslandi í fyrsta leik í milliriðli á EM á morgun. Sterka menn vanti í bæði lið.

Ísland missti út mikilvægan leikmann í Elvari Erni Jónssyni sem braut bein í hönd í sigri Íslands á Ungverjalandi í fyrrakvöld. Dagur segir að áhugavert verði að sjá hvernig íslenska liðið leysi þá stöðu.

„Það er smá erfitt að sjá áhrifin sem það hefur að missa Elvar. Hvernig þeir eiga eftir að spila úr því. Þetta er vissulega högg fyrir þá. En við erum í smá svipaðri stöðu, við misstum línumanninn okkar sem var sá leikmaður sem við leituðum til þegar það virkaði ekki allt í sókninni,“ segir Dagur sem á von á mikilli hörku.

„Við erum því líka breyttir. Ef eitthvað er, þá er íslenska liðið í betra formi en við höfum sýnt. Svo er þetta bara ein orusta. Við vitum að bæði lið hafa mikla réttlætiskennd. Þetta eru stríðsmenn. Þetta verður einhver orusta. Vonandi eru allir klárir og betra liðið vinnur,“ segir Dagur.

Fátt eigi þá að koma á óvart í uppstillingu liðanna og spilamennsku. Króatía vann sex marka sigur á Íslandi á HM fyrir ári síðan sem skaut Króötum áfram í 8-liða úrslit á meðan Ísland sat eftir í milliriðlinum.

„Ég held það sé ágætlega vitað hvað bæði lið spila. Það er ekkert endilega margt sem kemur á óvart. Kannski eru smá leynivopn ef menn lenda í vandræðum er eitthvað dregið fram úr erminni en líklega er ekkert nýtt undir sólinni,“ segir Dagur.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×