Sport

Fá meira fyrir níu pílna legg heldur en að vinna mótið

Aron Guðmundsson skrifar
Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, gæti alveg tekið upp á því að ná níu pílna legg í Sádi-Arabíu
Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, gæti alveg tekið upp á því að ná níu pílna legg í Sádi-Arabíu Vísir/Getty

Bestu pílukastarar í heimi eiga möguleika á því að vinna stórar peningafjárhæðir með afar óvenjulegum hætti á móti sem hefst í Sádi-Arabíu í dag.

Saudi Arabia Darts Masters hefst í dag og vel flestir af bestu pílukösturum í heimi mæta til leiks á mótinu. Pílukastarar á borð við ríkjandi heimsmeistarann Luke Littler og fyrrverandi heimsmeistara á borð við Luke Humphries, Michael van Gerwn og Gerwyn Price.

Sigurvegari mótsins fær því sem nemur um fimm miljónum króna fyrir sigur á mótinu en það sem hefur vakið athygli fólks á mótinu í aðdraganda þess er ákvörðun keppnishaldara að veita sérstök peningaverðlaun fyrir að ná níu pílna legg. 

Peningaverðlaunin fyrir að ná því munu vera eitthundrað þúsund bandaríkjadalir eða því sem nemur um 12.6 milljónum íslenskra króna. 

Takist einhverjum af keppendum mótsins að ná níu pílna legg mun sá hinn sami fá tíundu píluna til þess að reyna hitta bullseye. Takist það mun verðlaunaféð fyrir níu pílna legginn tvöfaldast og verða tvö hundruð þúsund Bandaríkjadalir, um 25.3 milljónir króna. 

Möguleikinn á þessum peningaverðlaunum verður í boði í gegnum allt mótið og rennur ekki út þó svo að einn pílukastari nái níu pílna legg.

Sýnt verður frá fyrri degi mótsins á Sýn Sport Viaplay í dag en mótinu lýkur svo á morgun með átta liða úrslitum, undanúrslitum og sjálfri úrslitaviðureigninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×