Tíska og hönnun

Best klæddu Ís­lendingarnir 2025

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Villi Vill, Júnía Lín, Elín Sif Hall, Sverrir Ingibergs og Birgitta Líf rata öll á lista yfir best klæddu Íslendingana 2025.
Villi Vill, Júnía Lín, Elín Sif Hall, Sverrir Ingibergs og Birgitta Líf rata öll á lista yfir best klæddu Íslendingana 2025. Vísir/Grafík

Stílhreint eða sturlað, afslappað eða ýkt eða bara allt í bland? Klæðaburður er áhugaverður tjáningarmáti sem hver og einn gerir að sínum af mismikilli ástríðu. Sumir vekja óneitanlega meiri athygli í tískunni en aðrir og hér verður gerð tilraun til að fara yfir best klæddu Íslendingana á árinu sem senn er að líða.

Listinn er langt frá því að vera tæmandi, endurspeglar auðvitað afmarkað álit en blaðamaður fékk aðstoð fjölbreyttra álitsgjafa og tískuspegúlanta úr ýmsum áttum. 

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

„Það taka allir eftir því þegar lögmaðurinn Villi Vill stígur inn í herbergið hvort sem það er í veislum, opnunarpartýum eða hvar sem er. Það er enginn með eins áberandi einstakan stíl og Villi Vill, sem hræðist ekki að feta ótraðnar slóðir í tískunni.“

„Hann er hreinlega alltaf til fyrirmyndar í fatavali, klæðir sig í fjölbreyttum litum og flíkum. Hreint út sagt magnað tískugúrú.“

Villi Vill er flottur í tauinu.Instagram

Mariane Sól

„Lúmsk tískudrottning sem stígur aldrei feilspor og er gjarnan með eitthvað skemmtilegt tvist í klæðaburðinum - sem gerir lúkkið alltaf betra.“

„Yfirhafnagyðja. Hún er óhrædd og hefur einstakt lag á að blanda saman litum, áferð og mynstrum sem koma svo skemmtilega á óvart!“

Júnía Lín

„Júnía Lín er með klassískan og kvenlegan stíl sem dettur ekki úr tísku. Hún hefur frábært auga fyrir fallegum silúettum og blandar spennandi fylgihlutum með klassískum flíkum á einstakan hátt.“

„Hún er svo mikill töffari og algjört sjarmatröll. Það er svo skemmtilegt að sjá hvernig henni tekst að taka stílhreinar en á sama tíma djarfar áhættur.“

Laufey Lín

„Það er eiginlega ekki hægt að sleppa Laufeyju Lín af lista sem þessum. Öll helstu tískuhús heimsins keppast auðvitað um að klæða skvísuna og hún hefur verið Chanel stúlkan lengi vel. 

Það er svo gaman að sjá hana skína skærar en nokkru sinni fyrr og vinna með listamönnum sem ýta undir þá listrænu snilld sem Laufey Lín er.“

„Töskusafn sem sæmir sannri tískugyðju og svo er alveg ótrúlega skemmtilegt hvernig Laufey er dugleg að rokka íslenska hönnun og koma henni út í alheiminn.“

Krummi Kaldal

„Ungur tískukóngur sem er alltaf ferskur. Fer eigin leiðir og leyfir sér að vera öðruvísi á algjörlega afslappaðan hátt.“

„Krummi Kaldal og Nadía Áróra eru flottasta tískupar landsins.“

Nadía Áróra

„Þessi stórglæsilega fyrirsæta og tískupæja er alltaf í einhverju sem mann langar í. 

Hún glitrar og glansar og ber með sér svo góðan þokka sem fer vel við skemmtilega áhættu sem hún tekur í tískunni.“

DJ Mellý

„Plötusnúðurinn og ofurpæjan DJ Mellý er sannkölluð gyðja og tískan er hennar listform. 

Hún sker sig algjörlega úr, hlær að áhættu og rokkar algjörlega einstakar flíkur. Meira er meira!“

Guðrún Karls Helgudóttir

„Séra Guðrún Karls Helgudóttir er algjörlega einstök og það á bæði við um hana sjálfa og stílinn hennar. Klæðaburður getur oft sagt okkur ýmislegt um manneskju að mínu mati. 

Í hennar tilfelli gefur hann sterkar vísbendingar um hugrekki, sjálfstraust og einlægni. Guðrún er óhrædd við að taka áhættu, með litríkan og djarfan stíl sem klæðir hana ótrúlega vel. Það sem skín í gegn er einlægnin hennar og stöðugleiki í því hver hún er. 

Hvort sem hún stígur inn í hlutverk prests, biskups eða er einfaldlega hún sjálf þá heldur hún sínum eigin stíl, sem er ótrúlega aðdáunarvert í samfélagi þar sem margir finna fyrir þrýstingi að falla inn í ramma sem fylgja nýjum titlum og væntingum. 

Þessir rammar eru jú samfélagssköpun en engin „heilög“ regla. 

Svo það er styrkjandi og mikilvæg áminning fyrir okkur öll að sjá fólk eins og Guðrúnu sem stendur í sínum sannleika, með sinn eigin stíl og karakter og minnir okkur þannig á að við megum líka vera við sjálf.“

Páll Óskar

„Páll Óskar er algjör þjóðarperla og stíllinn hans ekki síður verðmætur innblástur fyrir þjóðina. Honum fylgir alltaf einhver töfrandi gleði. 

Maður getur varla annað en glaðst þegar maður mætir litadýrðinni, pallíettunum og þessu ómótstæðilega brosi sem er svo oft á vörum hans.“

„Páll Óskar hefur fullkomnað listina að klæða sig á leikandi léttan, skemmtilegan og um leið ótrúlega klæðilegan hátt. Það er eins og allt sem hann klæðist hafi verið saumað á hann og í hans tilfelli er það líklega ansi oft satt. 

Hann hefur ótrúlega næmt auga fyrir sniðum, litum og áferð sem gera ekkert annað en að lyfta honum upp og láta hann skína enn skærar. 

Páll Óskar er einfaldlega einstakur í að skapa útgáfu af sjálfum sér sem er bæði listaverk og lífsgleði í einum pakka.“

Heiða Björg Hilmisdóttir

„Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, er án efa smartasti borgarstjóri sem borgin hefur verið með lengi, mögulega nokkru sinni. 

Hún er oft í flottum samfestingum og mjög óhrædd við óhefðbundin og smart dress.“

Tinna Brá

„Tinna Brá eigandi Hríms en alltaf smart og klæðist oft íslenskri hönnun, til dæmis flott í settum frá frá As We Grow eða í jökkum frá Farmes Market. 

Um daginn deildi hún myndbandi af fjölskyldunni allri í hvítum fötum fyrir fjölskyldumyndatöku hjá ljósmyndara og tók sig vel út eins og alltaf.“

Binni Glee

„Raunveruleikastjarnan Binni Glee leikur sér svo skemmtilega að mörkum kvenleika og gaurastæla, er ofurskvísa og gæjalegur og allt þar á milli en fyrst og fremst alltaf glæsilegur til fara.

Hlakka til að fylgjast með Binna þróast á komandi árum.“

Patrekur Jaime

„Kollegi Binna hann Patrekur Jaime er auðvitað einhver mesta skvísa landsins og brautryðjandi í íslenskri tískusenu. Slöngulokkar, óaðfinnanleg förðun, bling bling og litadýrð blandast allt saman í þá dívu sem Patrekur Jaime er.“

Halldóra Sif

„Íslenski hönnuðurinn Halldóra Sif, sem er með eitt vandaðasta íslenska tískumerki sögunnar Sif Benedicta, er með svo klassískan og flottan stíl. 

Hún er alltaf klædd eins og hefðardama með smá ögrandi módernisma í bland. Flíkurnar hennar eru allar úr hágæðaefnum og það bara sést.“

Bríet

„Frá því að Bríet skaust upp á íslenskan stjörnuhiminn hefur hún verið fastur liður á öllum helstu best klæddu listunum.

Henni tekst stöðugt að finna aftur upp hjólið, halda sér á tánum, skera sig úr og vera með hælana þar sem aðrir hafa tærnar. 

Með magnað kvennateymi að baki sér er ekkert sem Bríet getur ekki prófað og látið virka.“

Elín Sif Hall

„Leikkonan og söngkonan Elín Sif Hall er orðin að súperstjörnu og klæðaburður hennar endurspeglar það. 

Chanel drottning í Cannes, næntís popp prinsessa á sviði, indie chic pía í rólegheitum, Elín Hall rokkar þetta allt saman á sinn einstaka máta.“

Súperstjarnan Elín Sif Hall glæsileg í Cannes.Pierre Suu/GC Images

Sigrún Edda Eðvarðsdóttir

„Sissa hefur gegnt hlutverki tískudrottningar Reykjavíkurborgar í áratugi og heldur alltaf í sitt ótrúlega töff einkenni. 

Kúl jakkaföt, gellulegir hælar, hágæða hönnun í bland við næntís grúv. Sissa er einfaldlega flottust.“

Logi Þorvaldsson

„Best klæddi karlmaður Íslands og þótt víðar væri leitað. Logi er stjarna sem skín skært í Los Angeles um þessar mundir og kann að klæða sig betur en nokkur maður sem ég hef hitt. 

Hann er týpan sem rekst á eitthvað stórskrýtið á nytjamarkaði sem verður allt í einu eins og það allra nýjasta af tískupöllunum þegar hann rokkar það. Það nýtist manni alltaf vel að fá tískuráð frá Loga.“

Daníel Hjörvar

„Listunnandi, tískugúrú og flippkisi allt í senn og fjárfestir oft í tískunni hvort sem það sé frá Labubu, Rick Owens eða öðru dýru. 

Fer sínar eigin leiðir og það er alltaf gaman að rekast á Daníel Hjörvar og sjá hvað hann rokkar þann daginn.“

Daníel Hjörvar er með einstakan stíl.Aðsend

Torfi Tómasson

„Sjóðheitur poppprins, tískudrottning og allt þar á milli. 

Torfi Tómasson er óaðfinnanlegur í klæðaburði og auðvitað með fágaðar hreyfingar þegar hann svífur um Reykjavíkurborg og er auðvitað stórkostlegur dansari og tónlistarmaður.“

Sunneva Einars

„Sunneva Einars er pæja pæjanna og það er svo skemmtilegt að fylgjast með því hvernig hún klæðir sig. 

Hún leyfir sér alltaf að vera extra, er fylgin sjálfri sér og tekur þemum alvarlega. Galagellukjólar, loðfeldar, óaðfinnanlegt hár og förðun, Jacquemus töskur og annað gellulegt er algjörlega Sunneva Einars.“

Birgitta Líf

„2025 var ár tískunnar og glæsileikans hjá Birgittu Líf. Hver Instagram pósturinn á fætur öðrum sló algjörlega í geng og veitti manni innblástur í klæðaburði. 

Hún kann betur en flestir að rokka stílhreint lúkk með léttu tvisti og svo skín hún ekkert eðlilega skært.“

„Kim Kardashian okkar Íslendinga.“

Sverrir Ingibergsson

 „Einhver efnilegasti og heitasti tískuhönnuður framtíðarinnar sem hefur frá því hann fæddist veitt innblástur og fari eigin leiðir.“

„Mig dreymir um fitt frá Sverri Ingibergs. Hann bara einfaldlega veit hvað hann syngur þegar það kemur að tísku, skilur samsetningu, litaval, ögrun og hvað virkar betur en flestir.“

Fleiri sem voru tilnefnd: 

Anna Björnsdóttir, Anna Lísa Hallsdóttir, Árni Páll Árnason, Brynja Bjarna, Elísabet Gunnars, Guðmundur Birkir Pálmason, Guðrún Veiga, Guðrún Ýr, Hildur Sif Hauksdóttir, Hildur Yeoman, Jóhann Kristófer Stefánsson, Logi Pedro, Sædís Lea,  Pattra Sriyanonge, Saga Sig.

Álitsgjafar: Bjarki Sigurðsson, Bára G., Gerður Jónsdóttir, Guðný Björk Halldórsdóttir, Guðrún Kjartansdóttir, Helga H. Björnsdóttir, Hildur Gunnlaugsdóttir, Magnús Jochum Pálsson, Margrét Helga Erlingsdóttir, Oddur Atlason, Oddur Ævar, Sindri Snær Einarsson, Tómas Arnar Þorláksson, Vaka Vigfúsdóttir, Þórdís Björg. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.