Upp­gjörið: Vestri - KR 1-5 | KR bjargaði sér og sendi Vestra í Lengju­deildina

Kári Mímisson skrifar
KR-ingar halda sæti sínu í Bestu-deildinni á kostnað Vestra.
KR-ingar halda sæti sínu í Bestu-deildinni á kostnað Vestra.

KR heldur sæti sínu í Bestu deild karla en Vestri fellur eftir 5-1 stórsigur Vesturbæinga á Ísafirði í dag. Afturelding fylgir Vestra niður í Lengjudeildina.

Vestri og KR mættust í sannkölluðum úrslitaleik um að halda sæti sínu í Bestu deildinni að ári. Fyrir leikinn var ljóst að bæði lið þyrftu sennilega á sigri að halda til að tryggja tilverurétt sinn í deildinni því með jafntefli ætti Afturelding möguleika á því að fara yfir bæði lið og bjarga sér í leiðinni. Það var aftur á móti KR sem tryggði sæti sitt í deildinni að ári með sannfærandi 1-5 sigri eftir afar skemmtilegan leik.

Leikurinn fór hægt af stað en eftir tíðindalitlar upphafsmínútur var það KR sem skoraði fyrsta mark leiksins og það gerði Guðmundur Andri Tryggvason eftir góða sókn. Fyrirliðinn Aron Sigurðarson átti þá drauma sendingu í gegnum vörn Vestra á Matthias Præst sem renndi boltanum fyrir þar sem Guðmundur Andri mætti á ferðinni og kom boltanum í netið.

En saga KR í sumar hefur verið að strax og liðið hefur skorað fær það mark á sig í kjölfarið og svo varð raunin þegar Vladimir Tufegdzic kom boltanum í netið strax í kjölfarið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora í fyrri hálfleiknum en Eiður Gauti Sæbjörnsson fékk sannkallað dauðafæri til að tvöfalda forystu KR en skaut yfir einn gegn auðu marki og þá fékk Ágúst Eðvald Hlynsson gott færi til að jafna leikinn en fast skot hans af stuttu færi hitti ekki markið.

En í uppbótatíma fyrri hálfleiks tvöfaldaði KR forystu sína og það gerði Eiður Gauti eftir slæm mistök hjá Vestra þar sem liðið tapaði boltanum á hættulegum stað sem KR-ingar nýttu sér til að finna Eið Gauta sem vippaði boltanum laglega yfir Guy Smith í marki Vestra. Staðan 0-2 í hálfleik fyrir KR.

Það var ekki langt liðið á seinni hálfleikinn þegar KR komst þremur mörkum yfir og þar var aftur að verkum Guðmundur Andri. Luke Rae átti þá góða fyrirgjöf sem Eiður Aron Sigurbjörnsson tókst ekki að hreinsa og Guðmundur Andri gerði vel með því að klára færið.

Ágúst Eðvald gaf heimamönnum von þegar hann minnkaði muninn í 1-3 en Eiður Gauti skoraði sitt annað mark strax í kjölfarið og kæfði vonir Vestra um leið.

Það var svo Luke Rae sem skoraði fimmta mark KR eftir að liðið hafði unnið boltann ofarlega á vellinum áður en hann afgreiddi færið sitt glæsilega. Meira markvert gerðist ekki í leiknum og 1-5 sigur KR niðurstaðan sem leikur í deild þeirra bestu að ári á meðan Vestri ásamt Aftureldingu þurfa að gera sér það að góðu að leika í Lengjudeildinni.

Atvik leiksins

Fjórða mark KR verður að fá þetta. Ágúst Eðvald gaf Vestra heldur betur von með marki sínu en á þessum tímapunkti nægði jafntefli Vestra til að halda sér í deildinni þar sem Afturelding var undir gegn ÍA. En vonir Vestra voru skammlífar því Eiður Gauti náði að svara strax í kjölfarið á marki Vestra og fór því ansi langt með það að tryggja áframhaldandi veru KR í Bestu deildinni að ári.

Stjörnur og skúrkar

Fyrirliði KR, Aron Sigurðarson, var frábært fyrir KR í dag og dró heldur betur vagninn fyrir liðið. Guðmundur Andri og Eiður Gauti gerðu báðir tvö mörk og sýndu hversu mikilvægir þeir eru fyrir KR sem og Luke Rae sem ógnaði stanslaust með hraða sínum og krafti.

Stemning og umgjörð

Það var troðfull stúka á Ísafirði í dag en margir KR-ingar höfðu gert leið sína vestur til hvetja sitt lið til dáða í þessum úrslitaleik um hvort liðið myndi halda sér í deildinni að ári. Heimamenn mættu líka vel og ég hafði gaman af því þegar þeir byrjuðu að spila lag Evrópudeildarinnar en liðið mun leika þar að ári eftir að hafa orðið bikarmeistarar. Þetta tímabil verður eflaust lengi í minnum höfð hjá stuðningsfólki Vestra en eins og áður segir þá varð liðið bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira