Tónlist

Lög sem mönnum yrði slaufað fyrir í dag

Dóra Júlía Agnarsdóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Emmsjé Gauti og Blazroca, Bubbi og Megas, Laddi og Greifarnir kæmust sennilega ekki eins auðveldlega upp með sum laga sinna í dag og þegar þau komu út á sínum tíma.
Emmsjé Gauti og Blazroca, Bubbi og Megas, Laddi og Greifarnir kæmust sennilega ekki eins auðveldlega upp með sum laga sinna í dag og þegar þau komu út á sínum tíma.

Tónlist getur kallað fram sterkar tilfinningar, glatt mann, brotið niður eða vakið viðbjóð. Þegar horft er til baka koma mörg íslensk lög upp úr dúrnum sem gætu sennilega ekki komið út í dag vegna niðrandi, kynferðislegs eða óviðeigandi umfjöllunarefnis. 

Hér verður farið yfir tíu umdeild lög sem myndu líklega valda usla ef þau yrðu gefin út í dag og jafnvel leiða til slaufunar, í það minnsta töluverða skamma. 


Gremja og Þröngar píkur - Dabbi T

Það er hálfótrúlegt að þetta lag hafi yfir höfuð komið út og sturlað hvað það naut mikilla vinsælda meðal grunnskólanema. Textinn er ógeðslegur í alla staði og einkennist af mikilli gremju í garð fyrrverandi kærustu. 

Annað lag frá Dabba T sem er vert að taka fram í þessu samhengi er lagið „Þröngar píkur“ sem ómaði um ganga grunnskóla annars blaðamanns árið 2005. Dabbi T var auðvitað þekktur fyrir „óheflað málfar“ og þetta lag myndi setja allt á hliðina í dag.

Vert er að vara lesendur við áður en þeir hlusta á lagið enda textinn yfirgengilegur. 


Frystikistulagið - Greifarnir

„Ég ákvað þarna um morguninn að kál'enni

og velti henni því á bakið,

tók og snéri upp á hausinn á'enni

og vafð'ana svo inn í lakið.

Já, það er gott að vera laus við þessa leiðinda tík.

Hvað á ég nú að gera við þetta lík?“

Ekkert eðlilega sjúkur texti hjá Greifunum um mann sem níðist á og drepur konuna sína. Hann fær þó á endanum makleg málagjöld en ofbeldið er yfirgengilegt fyrir því. Ólíklegur slagari árið 2025 (en hvað veit maður).

Greifarnir voru sjálfir ósáttir við að þeim hefði verið „slaufað“ í þáttunum Popp- og rokksaga Íslands á Rúv fyrir nokkrum árum. En við gleymum þeim ekki hér á þessum lista.


Elskum þessar mellur - Erpur og Emmsjé Gauti

„Við viljum auðveldar stelpur. Segðu það Erpur. Við elskum þessar mellur,“ syngur Emmsjé Gauti í æðivinsæla slagaranum „Elskum þessar mellur“ sem kom út 2010. 

Emmsjé og Blaz, sem voru hálfgerð unglömb þá (allavega Gauti),  myndu sennilega ekki gefa út þetta lag í dag, orðnir miðaldra virðulegir menn. Lagið nýtur þó enn töluverðra vinsælda þegar það er sett á fóninn og er algjört heilalím. 


Ég er ekki alki - Bjartmar

Bjartmar Guðlaugsson þvertók fyrir það að vera alki en gekkst við margvíslegum vandamálum tengdum drykkjunni í þessu heldur ósmekklega lagi frá árinu 1987. 

„Ég er ekki einn af þeim sem kýli konur.

Ég er ekki einn af þeim sem hræðir börn.

En ég viðurkenni vel ef að ráðist er á mig

ég viðurkenni það, þá launar Sumarliði fyrir sig.“


Fatlafól og Litlir sætir strákar - Bubbi Morthens og Megas

Bubbi hafði verið tíður gestur í hljóðveri Megasar áður en þeir ákváðu að taka upp plötuna Bláir draumar saman haustið 1988. Þar eru gullmolar á borð við „Filterslaus kamel blús“ og „Tvær stjörnur“ en líka umdeild lög. 

Fyrst má nefna hið geysivinsæla „Fatlafól“ sem hefur fest sig í sessi íslenskrar tónlistarsögu en inniheldur vægast sagt óviðeigandi texta um fatlað fólk.

„Ég þekkti einu sinni fatlafól

sem flakkaði um í hjólastól

með bros á vör og berjandi þó lóminn

hann ók loks í veg fyrir valtara

og varð að klessu - ojbara

þeir tóku hann upp með kíttisspaða

og settu hann beint á sjónminjasafnið.“

En „Fatlafól“ olli ekkert svo miklu fjaðrafoki á sínum tíma, ekki miðað við lagið „Litlir sætir strákar“ þar sem Megas syngur um hvað litlir strákar eru meira aðlaðandi en barnungar stelpur.

„Ég dirfist ekki um stelpur meir

við stelpurnar að þrátta

þær eru töfrandi á aldrinum

frá tólf og niðrí átta.“

Textinn einn og sér er ýktur, vafasamur og gáskafullur. Lagið vakti þó sérstaka athygli vegna ævisögulegrar túlkunar á laginu í tengslum við samband Megasar og hins unga tælenska Mús. Megas hafði kynnst honum í Taílandi og komið með hann til Íslands árið áður.

Ýmsar sögusagnir spruttu fram um aldur og störf Mús enda ekki ljóst hve gamall Mú var nákvæmlega. Því var lengi haldið fram að hann væri á unglingsaldri, allt að þrettán ára gamall en Óttar Guðmundsson, sem skrifaði ævisögu Megasar, sagði hann hafa verið fullorðinn mann. 

Megas samdi einnig ástarlögin „Fílahirðirinn frá Súrín“ og „Tvær stjörnur“ um Mú. Lögin vöktu neikvæða athygli á sínum tíma en hafa síðan fest sig í sessi sem vinsæl ástarlög, þó aðallega í útgáfum annarra tónlistarmanna.


Feitar konur - Kátir piltar

Hljómsveitin Kátir piltar varð til í Hafnarfirði á níunda áratugnum og var skipuð ungum mönnum sem urðu síðar þekktir fyrir önnur störf. Þar má nefna Radíusbræðurna Davíð Þór Jónsson og Stein Ármann Magnússon, bræðurna Jakob Bjarnar og Atla Stein Grétarssyni og Ásgrím Sverrisson kvikmyndagerðarmann.

Sveitin vakti þó nokkra athygli vegna lagasmíða sinna en mesta athygli vakti sennilega lagið „Feitar konur“ sem Jakob Bjarnar Grétarsson syngur eftirminnilega.

„Þú hefur sagt mér hversu heitt þú annst mér,

við hittumst alltaf stundum þó við mælum okkur aldrei mót

En hvernig átti ég að orða þetta fyrir þér?

Ég ætlaði ekki að særa þig, en þú ert bæði feit og ljót.“


Of feit fyrir mig - Laddi

Feitar konur voru mönnum greinilega innblástur á níunda áratugnum því þegar sá tíundi gekk í garð gaf Laddi út lagið „Of feit fyrir mig“.

„Og þú mátt fá hana því ég vil ekki sjá hana

Því hún er allt of feit, hún er allt of feit,

Því hún er allt of feit.

Þú mátt taka hana því ég er búin að reka hana

Því hún er alltof feit, allt of feit, allt of feit,

Já hún er allt of feit.“

Lagið var einmitt tekið fyrir í leiksýningunni Þetta er Laddi í senu sem fjallaði um það hvernig verk Ladda hafa elst misvel í áranna rás. Lagið er þar flutt í ansi skemmtilegu atriði með Margréti Erlu Maack kabarett-dansara. 

Lagið eldist þó sennilega betur en Grínverja-karakter Ladda sem var einnig tekinn fyrir í sýningunni og hefur sungið sitt síðasta.


Á þig - Á móti sól

Lagið er sungið frá sjónarhorni Bjarka nokkurs sem gefur sig ekki þrátt fyrir að daman hafi ítrekað beðið hann að fara og láta sig vera. 

„Fikraði mig nær þér, fjær þér, nær þér, nær þér

og sagðist heita Bjarki.

Þú ansaðir hættu, farðu, þegiðu og sestu

og hætt'að abbast upp á mig

Oooooo... mig langar upp á þig

og þú veist að það er ekkert illa meint

þó mig langi upp á þig.“


Blautt dansgólf - Júlí Heiðar

Júlí Heiðar var bara átján ára þegar hann gaf út árið 2009 þetta groddalega lag um blaut dansgólf og miður geðslegar gjörðir sem fram fara þar.

„Strákar hér á dansgólfinu, grípið gellu strax

puttið han’á dansgólfinu, sýndu hvað þú kannt.“

Júlí gaf síðan út nýja, endurbætta og ritskoðaða útgáfu af smellinum fyrir nokkrum árum síðan og tók í staðinn gamla lagið út af Spotify. Ritskoðuðu útgáfuna má heyra hér:

Saknar þú einhvers lags sem er ekki á listanum? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is og hver veit nema við bætum því við eða gerum framhald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.