Innlent

Smáskjálftahrina minni á atburði fyrir eld­gos

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Náttúruvársérfræðingur segir virknina minna á aðdraganda eldgoss.
Náttúruvársérfræðingur segir virknina minna á aðdraganda eldgoss. Vísir/Samsett

Smáskjálftahrina reið yfir á Sundhnúksgígaröðinni á níunda tímanum í kvöld. Skjálftarnir mældust á svipuðum slóðum við upphaf síðustu kvikuhlaupa. Svipuð hrina reið yfir á sama svæði tveimur vikum fyrir eldgos í nóvember í fyrra.

Hrina smáskjálfta hófst á Sundhnúksgígum upp úr klukkan átta í kvöld. Viðvörunarstig vegna eldgoss var hækkað 25. september síðastliðinn og enn eru taldar líkur á kvikuhlaupi eða jafnvel eldgosi. Veðurstofan greindi frá því að 27. september hafi 11 milljón rúmmetrar af kviku safnast undir gígunum. Efri mörk kvikumagns sem Veðurstofan miðar við nemur 23 milljónum rúmmetra sem mun hafa safnast í kringum 18. desember.

Jarþrúður Ósk Jóhannesdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það líti út fyrir að virknin sé aðeins farin að fjara út. Engin önnur merki um yfirvofandi kvikuhlaup eða eldgos sjást í öðrum gögnum.

„Við höfum séð þetta áður eins og í nóvember í fyrra. Þá var smá skjálftavirkni og þá gaus tveimur vikum seinna,“ segur hún.

Þetta er ekki endilega merki um yfirvofandi gos en kvikan er farin að minna á sig?

„Einmitt, þetta er svolítið þannig,“ segir Jarþrúður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×