Upp­gjörið: Aftur­elding - KA 3-2 | Heima­menn sluppu með sigurinn

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
528601311_31272659795652607_7485935150491985187_n
vísir/diego

Afturelding sigraði KA 3-2 í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar karla í dag. Þrjú mörk Aftureldingar á sex mínútum lyftu liðinu úr botnsætinu og senda KR á botninn.

Ingimar Stöle klúðraði dauðafæri á fyrstu mínútu leiksins. KA menn héldu áfram að sækja en náðu ekki að gera sér mat úr sóknum sínum. Hallgrímur Mar Steingrímsson braut loks ísinn og skoraði fyrsta mark leiksins beint úr aukaspyrnu á 37. mínútu.

Það var mikið jafnræði milli liðanna eftir markið en Aftureldingu tókst ekki að nýta færin sín á síðasta þriðjungi vallarins. Staðan því 0-1 fyrir KA í hálfleik.

Það svipað uppi á teningnum í seinni hálfleik, bæði lið sóttu af krafti en lítið var að skila sér. Eða allt þar til á 67. mínútu þegar Hrannar Snær Magnússon jafnaði metin. Tveimur mínútum síðar skoraði Elmar Cogic beint úr aukaspyrnu og Mosfellingarnir komnir yfir.

Hrannar Snær Magnússon var aftur á ferðinni á 73. mínútu og bætti við sínu öðru marki og þriðja marki Aftureldingar. Þrjú mörk á sex mínútum og snéru heimamenn leiknum algjörlega við.

KA menn voru ekki búnir að gefast upp og skoraði Ívar Örn Árnason mark þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Fleiri urðu mörkin ekki og vann Afturelding sér inn þrjú mikilvæg stig í fallbaráttunni.

Atvik leiksins

Það verða að vera þessi þrjú mörk í heild sinni hjá Aftureldingu. Þvílíkur kafli sem liðið átti.

Stjörnur og skúrkar

Hrannar Snær Magnússon alveg frábær í dag. Mörkin hans tvö einkenndust af miklum einstaklingsgæðum.

William Tonning hefði hæglega getað gert betur í hornspyrnumarkinu. Tek ekkert af Elmari Cogic samt því markið var stórkostlegt.

Stemning og umgjörð

Glimrandi góð stemning í Mosó og nánast full stúka. 720 manns sem mættu á völlinn og heyrðist vel í stuðningsmönnum á leiknum.

Dómarar

Elías Ingi Árnason var á flautunni, með honum voru Bryngeir Valdimarsson og Bergur Daði Ágústsson. Leikurinn fékk að flæða vel hjá Elíasi og engin vafamál í dag að mínu mati.

Viðtöl

Hallgrímur Jónasson: „Svekktir að fá á okkur þrjú mörk“

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KAVísir/Pawel

„Svekktur að tapa leiknum, við spiluðum fínan fyrri hálfleik. Hefðum getað verið svona þremur mörkum yfir og farið með stærri stöðu inn í hálfleik. Við byrjuðum seinni hálfleikinn svo mjög vel en missum tökin á þessum sex mínútna kafla þar sem þeir skora þrjú mörk.“ - Sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, svekktur með tap liðsins í dag.

„Við hreyfðum aðeins í liðinu og það komu ungir strákar inná. Við náum að minnka muninn niður í 3-2 og erum að pressa vel niður á þá í lokinn. Ekkert út á mína leikmenn að klaga, við reynum virkilega alveg fram á síðustu mínútu.“

„Við hefðum þurft að gera betur í mörkunum sem við fáum á okkur. Hefðum þurft að vera klókari þegar við vitum að þetta eru þeirra hættur. Það var búið að gera smá breytingar og þá gerast stundum svona hlutir og þeir gengu á lagið og gerðu þrjú mörk á sex mínútum.“

„Áfram gakk, ég hefði verið pirraður ef menn hefðu gefist upp eða hætt. Við héldum áfram og töpum hérna 3-2 á útivelli. Við þurfum bara að halda áfram og vinna heimaleikina, við erum ekkert hættir en vissulega svekktir með að fá á okkur þrjú mörk.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira