Börsungar fóru illa með Valencia

Barcelona skoraði sex í kvöld.
Barcelona skoraði sex í kvöld. David Ramos/Getty Images

Eftir jafntefli við Rayo Vallecano í síðasta leik sínum í spænsku úrvalsdeildinni vann Barcelona afar öruggan 6-0 sigur gegn Valencia í kvöld.

Börsungar þurftu rétt tæpan hálftíma til að brjóta ísinn í leik kvöldsins, en það var Fermin Lopez sem kom liðinu yfir á 29. mínútu.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins, en eftir hlé opnuðust allar flóðgáttir.

Raphinha tvöfaldaði forystu Barcelona á 54. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Lopez annað mark sitt og þriðja mark heimamanna.

Raphinha bætti svo öðru marki sínu við á 66. mínútu áður en Robert Lewandowski gerði endanlega út um leikinn með tveimur mörkum, á 76. og 86. mínútu.

Niðurstaðan því afar öruggur 6-0 sigur Barcelona sem situr í öðru sæti spænsku deildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki. Valencia situr hins vegar í 15. sæti með fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira