Upp­gjörið: Víkingur R – Breiða­blik 2-4 | Meistararnir á­fram í stuði

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Frá leik Breiðabliks fyrr á tímabilinu
Frá leik Breiðabliks fyrr á tímabilinu Vísir/Diego

Breiðablik styrkti stöðu sína á toppnum með 4-2 sigri á Víkingi á Víkingsvelli í kvöld. 

Agla María, Berglind Björg (2) og Karitas með mörk Breiðabliks en mörk Víkings skoruðu Bergdís og Dagný. Blikar voru að vinna sinn níunda leik í röð í öllum keppnum. Blikar sitja á toppi deildarinnar með 37 stig en Víkingur er áfram í fallsæti eða níunda sæti með tíu stig.

Jafnræði í fyrri hálfleik en mörkin telja

Það ríkti ákveðið jafnræði með liðunum fyrstu tuttugu mínútur leiksins eða svo, Breiðablik var vissulega meira með boltann en Víkingar áttu sína spilkafla, hornspyrnur og sóknir. Það er hins vegar gömul saga og ný að mörk breyta leikjum. Á 25. mínútu leiksins skorar Agla María með góðu skoti úr teignum þar sem markvörður Víkinga kom engum vörnum við. Þetta mark virðist hafa slegið Víkinga aðeins út af laginu því skömmu síðar, eða á 29. mínútu, var staðan orðin 2-0 og í þetta sinn skoraði Berglind Björg sitt ellefta mark í deildinni á þessu tímabili, sannkallað framherjamark eftir góðan undirbúning frá Andreu Rut.

Leikurinn róaðist eilítið eftir þessi mörk, Víkingur alls ekki að spila illa og sýndu áfram fína takta og lögðu sig mikið fram, en þegar gengið var til búningsherbergja má engu að síður segja að Breiðablik fór með sanngjarna stöðu inn í hálfleikinn.

Stórskemmtilegur síðari hálfleikur

Breiðablik hóf síðari hálfleikinn af krafti. Birta skaut t.a.m. yfir úr ágætis marktækifæri með vinstri fæti í teignum eftir örfáar mínútur. Á 50. mínútu dró svo til tíðinda. Blikar fengu hornspyrnu sem Agla María spyrnti inn á markteiginn og þar var Berglind Björg í baráttunni og skoraði með skalla af stuttu færi. Blikar refsuðu Víkingum grimmilega, svo sannarlega þarna sem sváfu á verðinum. Staðan var orðin vænleg fyrir Blika á þessum tímapunkti. En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið.

Lið Víkings er nefnilega alls ekki þekkt fyrir að gefast upp og á 59. mínútu minnkaði Bergdís muninn og í kjölfarið gerði Nik þrefalda skiptingu á sínu liði en Blikar eru með breiðan hóp og hafa gert vel í að dreifa leikjaálaginu.

Á 70. mínútu á Bergþóra Sól, leikmaður Víkings, frábæra sendingu inn fyrir á Dagnýju sem slapp inn fyrir og kláraði færið sitt vel með lágu skoti niður í hornið með vinstri fæti fram hjá markverði Blika og munurinn var skyndilega bara orðinn eitt mark. Adam var hins vegar ekki of lengi í paradís því á 83. mínútu skoraði Karitas eftir að hafa fylgt á eftir skalla Samantha Smith sem fór í þverslána.

Liðin skiptust á að sækja í lokin en svo fór að Breiðablik vann að lokum 4-2 og var heilt yfir sterkara liðið á vellinum í dag. Leikmenn Víkings settu hins vegar inn flotta frammistöðu og lögðu mikið í leikinn og geta í raun gengið stoltir frá borði fyrir að gefast aldrei upp en sem fyrr eru það mörk á endanum sem skipta öllu máli og ráða úrslitum leikja.

Niðurstaðan er sú að Breiðablik tekur með sér þrjú stig heim í Kópavoginn og trónir á toppi deildarinnar. Níundi sigurleikurinn í röð í öllum keppnum.

Atvik leiksins

Fyrsta mark leikins, þ.e. markið hjá Öglu María bar vott um mikil einstaklingsgæði, mark sem brýtur ísinn og kemur Breiðablik yfir.

Stjörnur og skúrkar

Í liði Breiðabliks var Agla María öflug og skoraði glæsilegt mark og Heiða á miðjunni var sömuleiðis sívinnandi. Hjá Víkingi voru Dagný, Bergdís og Bergþóra Sól sprækar og settu inn góða frammistöðu. Enginn skúrkur í dag

Dómarinn

Fín frammistaða í kvöld hjá Jovan Subic og hans teymi. Lítið um vafasöm atvik, mögulega áttu Blikar tilkall í vítaspyrnu þegar varnarmaður Víkinga fékk boltann í höndina inni í vítateig. En dómararnir voru einfaldlega faglegir og flæðið fínt í dag. Einkunn 8,5.

Stemning og umgjörð

 Fámennt en góðmennt í stúkunni á Víkingsvelli og þeir áhorfendur sem mættu fengu flottan leik þetta þriðjudagskvöld. Veðrið var höfuðborgarlegt í fyrri hálfleik, þ.e. blautt og skýjað, en með miklum ágætum í þeim seinni. Umgjörðin í Fossvoginum var flott.

Viðtöl



Einar Guðnason: „Með smá heppni hefðum við getað skorað eitt í viðbót“

Einar Guðnason, þjálfari VíkingsVísir/Pawel Cieslikiewicz

Einar Guðnason, þjálfari Víkings, sagði fyrri hálfleikinn hafa verið svipaðan og fyrri hálfleikurinn var gegn Þrótti á dögunum.

„Mikið jafnræði fyrstu 25 mínúturnar og svo skora Blikar. Erfitt að stoppa Öglu Maríu, hún er náttúrlega frábær leikmaður og gerir þetta ótrúlega vel og skorar glæsilegt mark, það slokknar á liðinu okkar í kjölfarið og þær bæta öðru marki við.“

„En ég er ánægður með svarið sem við fengum þó að við höfum fengið mjög soft mark á okkur eftir fimm mínútur í seinni hálfleik. Að vera 3-0 undir á móti langbesta liðinu á landinu. Við héldum áfram, settum tvö góð mörk og með smá heppni hefðum við getað skorað eitt í viðbót en svo drepa Blikar þetta með fjórða markinu og sigla þessu heim.“

„Mér fannst þetta frábær leikur hjá báðum liðum, opinn og svona fram og til baka, og ég held að áhorfendur hafi allavega fengið eitthvað fyrir sinn snúð eins og sagt er.“

Næsti leikur er gegn Fram sem situr í sætinu fyrir ofan Víking. Aðspurður hvernig honum lítist á næsta leik segir Einar að liðið fari inn í alla leiki til að vinna þá.

„Þessi leikur í kvöld gefur okkur ekki neitt, þó svo við getum sagt að við höfum staðið okkur vel þá töpuðum við leiknum og fáum ekkert fyrir það og skiptir engu máli „in the end“, en hvernig við stóðum okkur getur kannski gefið okkur smá sjálfstraust að við höfum spilað vel á móti þessu Breiðabliksliði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira