Sport

Byssu­maðurinn ætlaði á skrif­stofu NFL en tók vit­lausa lyftu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
FBI á vettvangi í New York.
FBI á vettvangi í New York. vísir/getty

Borgarstjórinn í New York, Eric Adams, segir að byssumaðurinn sem myrti fjóra í skrifstofubyggingu á Manhattan hafi ætlað sér að komast inn á skrifstofu NFL-deildarinnar.

Byssumaðurinn var hinn 27 ára gamli Shane Tamura og spilaði amerískan fótbolta. Hann hélt því fram að hann hefði CTE og kenndi NFL-deildinni um þó svo hann hafi aldrei náð að spila í deildinni. CTE er heilaskaði sem myndast ef einstaklingar verða fyrir ítrekuðum höfuðhöggum.

„Hann virðist hafa kennt NFL um sitt ástand. Hann ætlaði sér þangað en tók vitlausa lyftu,“ segir Adams borgarstjóri en einn starfsmaður á skrifstofu NFL er engu að síður alvarlega slasaður eftir árásina.

Tamura var með miða á sér þar sem hann segist vera með CTE og fer fram á að heilinn í sér verði rannsakaður þar sem hann sé nú látinn. Hann fyrirfór sér eftir árásina.

Á miðanum vitnar Tamura einnig í fyrrum NFL-stjörnuna Terry Long sem fékk CTE og endaði líf sitt með því að drekka frostlög.

„Að spila fótbolta eins og Terry Long varð þess valdandi að ég drakk frostlög. Ekki fara gegn NFL-deildinni því hún mun kremja þig,“ ku standa meðal annars á miðanum.

„Vinsamlega rannsakið heilann minn. Mér þykir þetta miður. Deildin er viljandi að fela hversu hættulegt það er fyrir heilann að spila íþróttina til þess að hámarka sinn gróða.“

Staðfest er að Tamura hefur átt við geðræn vandamál að stríða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×