Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um verkefnið en grafísk mynd Vegagerðarinnar sýnir veglínuna. Leggja á sjö kílómetra kafla úr Dynjandisvogi og upp á heiðina auk þess sem 800 metra afleggjari verður lagður að fossinum.
Þar sem leggja á veginn um friðland Dynjanda var val á vegstæði þar viðkvæmt og virtist um tíma stefna í átök um hvernig veglínan yrði um voginn. Ein hugmyndin var að skera veginn inn í fjallshlíð ofan Búðavíkur en önnur að láta hann fylgja að mestu núverandi vegstæði, með þeim beygjum sem fylgja. Málamiðlun um millileið náðist sem sátt virðist um.

Um Dynjandisdal er núverandi veglínu að mestu fylgt en mesta breytingin verður á kaflanum þar sem vegurinn fer upp á sjálfa heiðina. Við Afréttarvatn var valin ný veglína á tveggja og hálfs kílómetra kafla.
Þegar tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag reyndist áætlaður verktakakostnaður vera upp á 1.762 milljónir króna. Þrjú tilboð bárust:
Lægsta boð átti Borgarverk í Borgarnesi, upp á 1.482 milljónir króna. Það reyndist vera 84 prósent af áætluðum kostnaði. Hin tvö tilboðin voru bæði yfir kostnaðaráætlun. Suðurverk bauð 1.820 milljónir króna, um 3 prósent yfir áætlun, en Ístak átti hæsta boð, upp á 2.250 milljónir króna, sem var 28 prósent yfir áætlun.

Þetta var eitt af þeim verkum sem átti að bjóða út í fyrra en voru söltuð vegna þess að peningarnir voru teknir í vanfjármagnað Hornafjarðarfljót. Hafa Vestfirðingar verið mjög ósáttir við þá seinkun enda átti þessi vegagerð að fylgja Dýrafjarðargöngum sem voru opnuð árið 2020.
Það er reyndar þegar búið að klára fyrstu tvo áfangana, samtals 25 kílómetra kafla milli Mjólkárvirkjunar og Flókalundar. Þriðji áfanginn, sem núna er að hefjast, á að klárast haustið 2026. Þar með næst stór áfangi í því að gera vesturleiðina svokölluðu að aðaltengingu Vestfjarða við aðra landshluta en þetta verður stysta leiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Þá er hins vegar fjórði áfanginn eftir, tenging Bíldudals við Dynjandisheiði. Vestfirðingar þrýsta mjög á þá framkvæmd til að ná því markmiði að tengja saman byggðir á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum með heilsársvegi.
Bíldudalsleggurinn styttir einnig leiðina fyrir þungaflutninga með laxaafurðir um 44 kílómetra. Flutningabílarnir frá Bíldudal þurfa núna að aka um þrjá fjallvegi á leiðinni yfir í Vatnsfjörð; yfir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Þá hefði Bíldudalsleggurinn komið sér vel í gær þegar leiðin um Raknadalshlíð í Patreksfirði og Kleifaheiði var lokuð vegna snjóflóðahættu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: