Sport

Guð­laug Edda fékk brons og Ólympíu­draumurinn er innan seilingar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Osaka-búar tóku Guðlaugu Eddu fagnandi þegar hún kom þriðja í mark í nótt.
Osaka-búar tóku Guðlaugu Eddu fagnandi þegar hún kom þriðja í mark í nótt.

Þríþrautarkappinn Guðlaug Edda Hannesdóttir fór langleiðina með að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í sumar þegar hún lenti í þriðja sæti í Asia Triathlon Cup í Osaka í Japan.

Keppnin var sú síðasta sem gefur stig inn á Ólympíuleikana en á næstu dögum skýrist hvaða keppendur fara á leikana.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun bronsið í nótt hafa tryggt Guðlaugu nægilega mörg stig til að komast á leikana. Hún er sem stendur í 164. sæti heimslistans en mun líklega taka gott stökk með bronsinu.

Eftirtektarverð endurkoma eftir erfið meiðsli

Guðlaug glímdi við erfið mjaðmameiðsli allt síðasta keppnistímabil en hefur komið sterk til baka eftir uppskurð. 

Hún stökk upp um 76 sæti á heimslistanum, úr 347. í 274. sæti, eftir sterkan sigur í Namibíu í fyrstu keppni hennar eftir endurkomuna.

Í maí hefur Guðlaug verið á ferðalagi um Asíu og keppt í þremur þríþrautarkeppnum með afar góðum árangri. Hún vann keppni í Nepal, fékk silfur í Filippseyjum og náði bronsinu núna í nótt.

Næst er að sjá hvort hún kemst á Ólympíuleikana í París í sumar og hvernig henni gengur þar. Engin íslensk íþróttakona hefur náð ólympíulágmarki á leikana í sumar enn sem komið er.


Tengdar fréttir

Bráðnaði ekki í hitanum á Filippseyjum og náði í silfur

Íslenska þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir varð í öðru sæti á þríþrautarmóti á Filippseyjum í dag og náði sér þar með í dýrmæt stig í baráttunni um laus sæti á Ólympíuleikunum í París seinna í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×