Erlent

Um 800.000 Evrópu­búar taldir hafa fallið fyrir kín­verskri svika­myllu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks hefur fallið fyrir svikunum, sem standa enn yfir.
Fjöldi fólks hefur fallið fyrir svikunum, sem standa enn yfir. Getty

Umfangsmikið netverslunarsvindl hefur verið rakið til Kína en um 800.000 Evrópubúar eru taldi hafa fallið fyrir því og deilt persónulegum upplýsingum í gegnum falskar vefsíður.

Þetta eru niðurstöður sameiginlegrar rannsóknar Guardian, Die Zeit og Le Monde en yfirvöld í Bretlandi segja um að ræða eitt umfangsmesta svindl sinnar tegundar sem vitað er um.

Blaðamenn og sérfræðingar í tæknimálum segja gögn benda til þess að um sé að ræða afar skipulagða og fágaða svikastarfsemi.

Glæpamennirnir á bak við svikamylluna eru sagðir hafa búið til um það bil 76 þúsund vefsíður þar sem lúxusvarningur sé sagður til sölu, til að mynda merkjavara frá Dior, Hugo Boss, Nike, Prada og Versace.

Síðurnar eru á fjölda tungumála en tilgangur þeirra virðist vera að fá fólk til að gefa upp persónulegar upplýsingar, til að mynda netföng, og debet- og kreditkortanúmer. Fólk pantar þannig vörur í gegnum síðurnar, sem það fær aldrei í hendurnar.

Fyrsta síðan er sögð hafa farið í loftið árið 2015 en á síðustu þremur árum hafa yfir milljón „pantanir“ farið í gegnum síðurnar. Svo virðist sem glæpamönnunum hafi ekki tekist að hafa fé af öllum notendum.

Svikin eru sögð standa yfir enn í dag en af umræddum 76 þúsund síðum eru 22.500 enn virkar.

Katherine Hart hjá Chartered Trading Standards Institute segir skipulagða glæpahópa oft á bak við gagnaþjófnað af þessu tagi og upplýsingarnar kunni að verða nýttar gegn fólki síðar meir.

„Gögn eru hinn nýi gjaldmiðill,“ segir Jake Moore, ráðgjafi í netöryggismálum hjá ESET. Hann segir umfangsmikla gagnagrunna verðmæta og að gera verði ráð fyrir að þau gögn sem þarna hafi verið safnað endi í höndunum á yfirvöldum í Kína.

Hér má finna ítarlega umfjöllun um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×