Enski boltinn

Ten Hag segir Bruno vera með mjög háan sárs­auka­þröskuld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes lagði upp markið sem kom Manchester United í næstu umferð enska bikarsins.
Bruno Fernandes lagði upp markið sem kom Manchester United í næstu umferð enska bikarsins. Getty/ Catherine Ivill

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, sakaði leikmenn Nottingham Forest um að vera með skotmark á Bruno Fernandes í bikarleiknum í gærkvöldi og segir að gagnrýnin á leikaraskap Portúgalann sé hreinlega aumkunarverð.

Fernandes átti aukaspyrnuna sem bjó til sigurmark Casemiro rétt fyrir leikslok. Fyrir vikið tryggði United sér leik á móti Liverpool í átta liða úrslitunum.

„Þú sást að leikmenn Forest ætluðu sér að ná honum. Þeir brutu mikið á honum og þeir gáfu honum ekkert pláss þegar hann átti að fá boltann,“ sagði Erik ten Hag. ESPN segir frá.

Hinn 29 ára gamli miðjumaður sást haltra í leiknum og Ten Hag talaði um ósanngjarna umræðu um leikaraskap Portúgalans.

Bruno fékk á sig mikla gagnrýni eftir Fulham leikinn um helgina. Þá lá hann í grasinu eftir að því virtist litla snertingu en stökk síðan upp til að taka þátt í lofandi sókn.

„Ég sé að samfélagsmiðlarnir eru að gagnrýna hann. Það er aumkunarvert. Hann meiddist alvarlega en hélt samt áfram að spila á laugardaginn. Hann barðist líka fyrir því að vera hluti af þessum leik,“ sagði Ten Hag. Hollenski stjórinn vildi þó ekki tala um hver þessi alvarlegu meiðsli væru.

Ten Hag segir að Bruno hafi verið að spila í gegnum sársaukann í leiknum í gær.

„Hann hefur mjög háan sársaukaþröskuld og í fyrra gerði hann svipað á móti Tottenham og að ég held í undanúrslitaleiknum á móti Brighton. Það sýnir leiðtogahæfileika hans,“ sagði Ten Hag.

Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Nottingham Forest, tók ekki undir þessa gagnrýni Ten Hag.

„Ég sá ekki það sem Erik sá. Fernandes er mjög góður leikmaður. Það þarf að hafa stjórn á honum. Við gerðum það á sanngjarnan hátt,“ sagði Nuno Espirito Santo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×