Sport

Littler þakk­látur: „Ég er bara strákur sem er að upp­lifa drauminn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler er spáð glæstri framtíð í pílukastinu.
Luke Littler er spáð glæstri framtíð í pílukastinu. getty/Zac Goodwin

Luke Littler, sem lenti í 2. sæti á HM í pílukasti, þakkaði aðdáendum sínum fyrir stuðninginn í hjartnæmri færslu á samfélagsmiðlum.

Hinn sextán ára Littler heillaði heimsbyggðina á leið sinni í úrslitin á HM í pílukasti í kringum áramótin. Hann fékk tvö hundruð þúsund pund (35 milljónir íslenskra króna) fyrir árangur sinn á HM og kom sér rækilega fyrir á pílukortinu.

Líf Littlers hefur breyst gríðarlega á undanförnum vikum, hann er allt í einu orðinn milljónamæringur, almenningseign og er kominn með rúmlega milljón fylgjendur á Instagram.

Hann er einnig með rúmlega 144 þúsund fylgjendur á Twitter og hann sendi aðdáendum sínum fallega kveðju á miðlinum.

„Vil bara þakka öllum fyrir stuðninginn,“ skrifaði Littler á Twitter og bætti við að hann hefði ekki getað svarað öllum skilaboðunum sem hann hefur fengið undanfarnar vikur. 

„Líf mitt hefur breyst gríðarlega síðustu vikur og það er bara ekki mögulegt að svara öllum. Ég er bara ungur strákur sem er að upplifa drauminn og vonandi er það hvetjandi fyrir aðra í framtíðinni.“

Littler var boðið á leik Manchester United og Tottenham á sunnudaginn. Þar fékk hann meðal annars United-treyju áritaða af sjálfum Sir Alex Ferguson. Hann hitti síðan Skotann eftir leikinn.

Littler heldur til Barein í dag þar sem hann tekur þátt í móti sem er hluti af heimsbikarmótaröðinni í pílukasti. Hann er einnig kominn með þátttökurétt í úrvalsdeildinni í pílukasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×