Sport

Í­þrótta­fólk bjargaði ferða­mönnum frá drukknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keppendur í þríþrautarkeppni en myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Keppendur í þríþrautarkeppni en myndin tengist fréttinni þó ekki beint. Getty/Sean M. Haffey

Þríþrautarfólk er þolmikið og öflugt íþróttafólk enda að keppa hverju sinni í þremur ólíkum en krefjandi greinum. Hæfileikar þess geta líka bjargað mannslífum þegar svo liggur við.

Íþróttafólk sem var að keppa í Járnkarli í Sydney um helgina reyndist ferðamönnum á svæðinu sannkallaðir lífgjafar eftir að alda greip 25 manns með sér út á haf.

Íþróttafólkið var þarna í keppni á Nutri-Grain IronMan og IronWoman mótaröðinni á Maroubra ströndinni í Sydney. Í þríþrautarkeppni eins og Járnkarli þá þarf hver og einn að synda 3,8 kílómetra, hjóla 180 kílómetra og hlaupa svo heilt maraþon eða 42.2 kílómetra.

Eftir að keppninni lauk og búið var að veita verðlaun var keppnisfólkið auðvitað mest til í að fá aðeins að hvíla sig eftir krefjandi keppni. Nú var hins vegar allt í einu mikil hætta á ferðum og ferðamennirnir að berjast fyrir lífi sínu í sjónum.

Þríþrautarfólkið beið ekki boðanna þegar það sá vandræði ferðamannanna heldur fór strax í það að hjálpa strandvörðunum við það að bjarga fólkinu frá drukknun.

Íþróttafólkið lagði líf sitt í mikla hættu fyrir utan að það hafði sjálft verið þarna í krefjandi keppni.

Þetta var samt sem betur fer saga sem endaði vel því allir ferðamennirnir björguðust og íþróttafólkið var því án nokkurs vafa hetjur dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×