Sport

Ungstirnið Littler flaug í úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luke Littler er kominn í úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti.
Luke Littler er kominn í úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti. Vísir/Getty

Hinn 16 ára gamli Luke Littler er kominn í úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti í sinni fyrstu tilraun eftir öruggan 6-2 sigur gegn fyrrum heimsmeistaranum Rob Cross.

Littler hefur komið eins og stormsveipur inn á pílusviðið og heillað heimsbyggðina með spilamennsku sinni. Hann lét Rob Cross, sem varð heimsmeistari í pílukasti árið 2018, ekki ógna sér og tryggði sér örugglega sæti í úrslitum.

Cross byrjaði betur og vann fyrsta settið 3-2, en Littler svaraði með því að vinna næstu þrjú sett, 3-2, 3-1 og 3-2.

Littler var því fljótlega kominn í nokkuð þægilega stöðu áður en Cross hélt sjálfum sér á lífi með 3-2 sigri í fimmta setti og minnkaði þar með muninn. Eftir það tók hinn 16 ára gamli þó öll völd. Hann vann næstu þrjú sett og klárað þar með leikinn, 6-2.

Littler er þar með kominn í úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti í fyrstu tilraun þar sem hann mætir annað hvort Scott Williams eða Luke Humphries.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×