Sport

Krefjast alls­herjar banns íþróttafólks frá Ísrael

Valur Páll Eiríksson skrifar
Prins Ali bin Hussein er forseti fótboltasambands Jórdaníu og jafnframt meðlimur konungsfjölskyldu landsins. Hann er hér ásamt Gianni Infantino, forseta FIFA.
Prins Ali bin Hussein er forseti fótboltasambands Jórdaníu og jafnframt meðlimur konungsfjölskyldu landsins. Hann er hér ásamt Gianni Infantino, forseta FIFA. Getty

Knattspyrnusamband Jórdaníu hefur krafist þess að íþróttasamfélagið taki höndum saman gegn innrás Ísraela í Palestínu og að ísraelskt íþróttafólk verði bannað frá þátttöku í alþjóðlegum keppnum.

„Knattspyrnusamband Jórdaníu hvetur alþjóðaíþróttasamfélagið, þar á meðal öll þess sambönd, til að taka tafarlaust til aðgerða til að verja saklausa borgara,“ segir meðal annars í yfirlýsingu sambandsins.

Slíkar aðgerðir séu hluti af ábyrgð íþróttaheimsins og þess krafist að aðgerðir séu teknar gegn íþróttasamböndum Ísraela og þeim meinuð þátttaka í alþjóðlegri keppni.

Tekið er fram í yfirlýsingunni að íþróttahreyfingin geti ekki setið hjá aðgerðarlaus á meðan saklaus börn láti lífið á hendur Ísraela. Þögn íþróttahreyfingarinnar við þær aðstæður sem uppi eru geti verkað sem samþykkt á morðunum sem eigi sér stað í Palestínu.

Aðgerðir í líkindum við þær sem jórdanska knattspyrnusambandið kallar eftir væru ekki einsdæmi. Rússar hafa sætt banni frá keppni á vegum sambanda á við Alþjóðaólympíunefndina, FIFA, UEFA og fleiri vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Yfirlýsing knattspyrnusamband Jórdaníu þar sem kallað er eftir aðgerðum gegn Ísrael.Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×