Innlent

Kvika virðist hætt að streyma í kvikuganginn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að dregið hafi úr líkum á gosi.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að dregið hafi úr líkum á gosi. Vísir/Vilhelm

Kvika virðist hætt að streyma inn í kvikuganginn á Reykjanesi. Hún safnast nú saman undir Svartsengi á hraða sem svipar til streymis Elliðaáa. Prófessor í jarðeðlisfræði segir að líkur á eldgosi hafi minnkað þrátt fyrir að ekki sé hægt að afskrifa það.

„Það bendir allt til þess að kvika sé hætt að flæða in í ganginn og hafi ekki gert það síðustu daga. Sem eru góðar fréttir í bili en það er landris undir Svartsengi,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði. 

Streymið í kvikuhólf undir Svartsengi svipi til þess sem var fyrir atburðina sem leiddu til þess að Grindavík var rýmd. „Þetta er ekkert mjög hratt streymi en samt eru þetta einhverjir nokkrir rúmmetrar á sekúndu sem eru að safnast þarna undir, ein Elliðaár eða rúmlega það, og það telst bara töluvert í öllum svona fræðum.“

Kvikan liggur þar á um fimm til sex kílómetra dýpi. Magnús Tumi segir að dregið hafi úr líkum á eldgosi þrátt fyrir að ekki sé hægt að afskrifa það. 

Þrátt fyrir að litlar líkur séu á gosi í Grindavík er of snemmt að segja hvenær íbúar geta snúið aftur heim, segir prófessor í jarðeðlisfræði.vísir/Vilhelm

Komi til goss á næstunni sé enn líklegast að kvikan fari aftur inn í ganginn og komi upp í sprungunni þar.

„Þar er veikleikinn, þar er jarðskorpan veik fyrir og nánast opið. Ef það kæmi til goss er lang líklegasti staðurinn við Sundhnúka og þar. Þar er gangurinn breiðastur og þar var uppstreymið.“

Magnús Tumi segir of snemmt að segja hvenær Grindvíkingar geti mögulega snúið aftur heim, meðal annars þurfi að huga að hættulegum sprungum.

„Það erað mörgu að gæta í því og líka bara að gera bæinn sæmilega öruggan áður en til þess kæmi,“ segir Magnús Tumi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×