Erlent

Banka­starfs­maður rekinn fyrir að kaupa kaffi og sam­loku fyrir konuna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var ekki kostnaðurinn við samlokuna sem skipti máli, heldur hver borðaði hana.
Það var ekki kostnaðurinn við samlokuna sem skipti máli, heldur hver borðaði hana.

Vinnumáladómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að Citibank hafi verið heimilt að reka starfsmann sem rukkaði bankann um endurgreiðslu fyrir tvo kaffibolla, tvær samlokur og tvo pastarétti.

Frá þessu greinir BBC.

Málið varðar starfsmann sem hafið unnið við greiningar hjá Citibank í Lundúnum í sjö ár. Sérsvið hans voru fjármálaglæpir.

Szabolcs Fekete fór vinnuferð til Amsterdam í þrjá daga í júlí í fyrra en þegar hann mætti aftur til vinnu í Lundúnum rukkaði hann Citibank um útlagðan kostnað. Kostnaðinn taldi Fekete falla undir reglur um dagpeninga, sem voru 100 evrur á dag.

Yfirmaðurinn sem fór yfir kvittanir Fekete gerði hins vegar athugasemdir við fjárútlát hans og vildi fá að vita hvort hann hefði neytt alls þess matar sjálfur sem hann hafði greitt fyrir. Fekete varð það á að ljúga í svörum sínum og sagði að já, hann hefði sjálfur drukkið tvo kaffibolla, borðað tvær samlokur og svo framvegis.

Hið rétta var að hann hafði boðið konu sinni með í ferðina og taldi að svo lengi sem eyðslan væri innan áðurnefndra 100 evra marka þá væri honum frjálst að rukka fyrirtækið, þrátt fyrir að hann hefði ekki sjálfur neytt alls matarins. 

Reglur bankans kveða hins vegar á um að starfsmenn geta ekki fengið endurgreitt vegna máltíða og ferðalaga maka og þá er þess krafist að nöfn allra þeirra sem starfsmenn greiða fyrir fylgi með kvittunum.

Citibank vísaði málinu áfram til öryggis- og rannsóknardeildar bankans, sem krafðist þess að vita hvort Fekete hefði deilt máltíð þar sem tveir pastaréttir voru pantaðir en aftur neitaði Fekete.

Bankastarfsmaðurinn játaði síðar að eiginkonan hefði neytt matarins með honum og sagðist hafa verið á sterkum verkjalyfjum þegar hann laug að yfirmönnum í tölvupósti.

Dómarinn í málinu úrskurðaði Citibank í vil og sagði bankanna hafa verið í fullum rétti þegar Fekete var sagt upp störfum. Málið snérist ekki um upphæðir heldur um framgöngu starfsmannsins. Hann hefði átt að segja satt og rétt frá við fyrsta tækifæri, enda mikilvægt að hann nyti trausts starfs síns vegna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×