Forstjóri Hvals telur líklegt að hann fái að halda áfram að veiða hval á næsta ári. Núgildandi veiðileyfi var gefið út fyrir fimm árum og rennur út um áramótin. Í samtali við breska miðilinn Guardian segir Kristján að hann þekki vel til stjórnmála á Íslandi og fólksins, og því hafi hann ekki miklar áhyggjur.
„Þetta lítur ekki vel út… En ég hef ekki áhyggjur. Ég þekki fólkið hérna og stjórnmálin betur en margir halda. Ég held að þetta verði ekki vandamál. Ég er handviss um að við munum halda hvalveiðum áfram á næsta ári,“ segir Kristján.
Í viðtalinu er einnig rætt við Valgerði Árnadóttur, talsmann Hvalavina, og Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem hafa allt aðra skoðun á veiðunum og telja líklegt að þeim verði hætt.
Valgerður bendir í viðtalinu á þingsályktunartillöguna sem nú er til meðferðar á þingi þar sem lagt er til að hvalveiðar verði bannaðar alfarið.
Kristján segist þó ekki hafa áhyggjur af því og telur ólíklegt að þær verði bannaðar. Í viðtalinu segist hann hafa margar hugmyndir hvernig sé hægt að nýta hvalkjötið og nefnir sem dæmi í járntöflur.
„Þetta er stærsta heilsufarsvandamál heimsins, járnskortur. Viltu vera með harðlífi og niðurgang?“ spyr Kristján sem einnig segist hafa hugsað um að selja dauða hvali sem einingar til kolefnisjöfnunar.
Hann vísar því á bug í viðtalinu að hann haldi hvalveiðunum aðeins áfram vegna loforðs við föður sinn á dánarbeði hans. „Nei, nei, hann var raunsæismaður. Þetta eru bara viðskipti. Við erum með tækin og þetta er auðlind sem við getum nýtt,“ segir Kristján.
Hann segir að í kringum Ísland syndi um 40 þúsund langreyðar og að vegna þess hve lítill kvótinn sé geti hann haldið áfram að eilífu.