Sport

Sara keppir næst hinum megin á hnettinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir keppir í Ástralíu í jólamánuðinum.
Sara Sigmundsdóttir keppir í Ástralíu í jólamánuðinum. @sarasigmunds

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir náði ekki að tryggja sig inn á Rogue Invitational CrossFit mótið í Texas en það þýðir þó ekki að hún keppi ekki aftur á þessu ári.

Sara hefur nú staðfest þátttöku á Down Under Championship mótinu. Mótið fer fram hinum megin á hnettinum eða í Wollongong í New South Wales fylki í Ástralíu.

Keppnishöllin er WIN Entertainment Centre en Wollongong er þrjú hundruð þúsund manna borg suður af Sydney á austurströnd Ástralíu.

Mótið verður dagana 1. til 3. desember næstkomandi og þar munu keppa alls 380 keppendur í öllum flokkum. Þegar mótið var haldið í fyrra þá komu yfir tíu þúsund áhorfendur á mótið.

Þeir sem þekkja Söru vita að hún hefur oft keppt í Dúbæ á þessum tíma ársins en nú fer hún enn lengra í burtu frá Íslandi. Það verður hins vegar sumar í Ástralíu þegar Sara mætir á svæðið eftir að hafa flogið í burtu úr vetrarmyrkrinu á Íslandi.

Sara er ein af stjörnum mótsins og það verða margir spenntir að sjá hvað hún getur gert til að enda vonbrigðarár á góðum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×