Sport

Elsa heimsmeistari þriðja árið í röð og setti tvö heimsmet

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimsmeistararnir Hörður Birkisson og Elsa Pálsdóttir. Milli þeirra er yfirþjálfarinn Kristleifur Andrésson.
Heimsmeistararnir Hörður Birkisson og Elsa Pálsdóttir. Milli þeirra er yfirþjálfarinn Kristleifur Andrésson. Kraftlyftingasamband Íslands

Elsa Pálsdóttir og Hörður Birkisson urðu heimsmeistarar í sínum flokki á HM öldunga í kraftlyftingum. Mótið er haldið í Ulaanbaatar í Mongólíu.

Elsa varð heimsmeistari í -76 kg flokki þriðja árið í röð. Ekki nóg með það heldur setti hún tvö heimsmet.

Elsa vann gull í hnébeygju þegar hún lyfti 140 kg. Hún bætti sitt eigið heimsmet í flokki 60-69 ára um tvö kg. Elsa vann einnig til gullverðlauna í réttstöðulyftu með því að lyfta 170,5 kg. Hún vann til silfurverðlauna í bekkpressu með lyftu upp á 62,5 kg.

Samanlagt lyfti Elsa 373,0 kg sem færði henni 74,03 IPF stig. Hún var önnur stigahæst kvenna í sínum aldursflokki yfir alla þyngdarflokka.

Hörður varð heimsmeistari í -74 kg flokki öldunga 60-69 ára. Samanlagður árangur hans var 467,5 kg og hann bætti eigið Íslandsmet um 12,5 kg.

Hörður vann til gullverðlauna í hnébeygju (175 kg) og réttstöðulyftu þar sem hann setti Íslandsmet (195 kg).

Þriðji íslenski keppandinn á HM, Sæmundur Guðmundsson, stígur á stokk á föstudaginn. Hann keppir í kraftlyftingum með útbúnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×