Sport

„Áttum ekki sérstakan leik en virði stigin“

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ekki sáttur með frammistöðuna í kvöld
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ekki sáttur með frammistöðuna í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með stigin tvö en var svekktur með frammistöðu liðsins eftir þriggja stiga sigur gegn Stjörnunni.

„Mér fannst við ekki eiga sérstakan leik en ég virði stigin. Mér fannst frammistaðan ekki næginlega góð en ef ég fer betur yfir þetta í kvöld eða á morgun þá sé ég mögulega eitthvað jákvætt en við áttum kafla og kafla. Ekki meira en það,“ sagði Benedikt Guðmundsson eftir leik.

En hvað er það sem Benedikt er ekki sáttur með?

„Frammistaðan. Við vorum að framkvæma mjög illa á báðum endum vallarins undir lokin og við vorum að taka vondar ákvarðanir. Við gerðum vel inn á milli og ég tek það ekki af liðinu en ég er ekkert voðalega sáttur. Við tókum samt öll stig og við þurfum á öllum stigum að halda. Við þurfum að halda áfram að safna stigum en þetta var ekki nægilega gott.“ 

Benedikt var ekki ánægður með að Chaz Williams og Mario Matasovic voru þeir einu sem voru að setja stig á töfluna fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik.

„Ég talaði um það í hálfleik að við færum ekki langt með tvö hjól undir bílnum í sókninni og við yrðum að fá þriðja og fjórða hjólið og helst hafa þetta átta hjóla kagga. Í seinni steig Carlos [Nova Mateo] upp og átti stóran þátt í að við kláruðum þetta.“

Mikil umræða hefur verið um hvort eigi að sameina meistaraflokk Njarðvíkur og Keflavíkur en hvaða skoðun hefur Benedikt á því?

„Það verða aðrir að finna út úr því. Ég fæ þann heiður að fá að þjálfa félag eins og Njarðvík en ég hef ekki verið hérna nógu lengi til þess að eiga rétt á þeirri skoðun en eins og með allt annað verður þetta skoðað af rétta fólkinu,“ sagði Benedikt Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×