Sport

Endur­tekning á úr­slita­leiknum frá því fyrir tveimur árum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Medvedev mætir Novak Djokovic í úrslitum opna bandaríska mótsins annað kvöld.
Medvedev mætir Novak Djokovic í úrslitum opna bandaríska mótsins annað kvöld. Vísir/Getty

Daniil Medvedev tryggði sér í nótt sæti í úrslitum opna bandaríska meistaramótsins í tennis. Hann vann sigur á Carlos Alcaraz í fjórum settum og mætir Novak Djokovic í úrslitum.

Margir vonuðust til þess að úrslitaleikurinn yrði næsti kafli í áhugaverðri baráttu þeirra Novak Djokovic og Carlos Alcaraz. Þeir mættust í úrslitum Wimbledon-mótsins í sumar þar sem Spánverjinn Alcaraz hafði betur en Djokovic er sigursælasti karlmaður í sögu tennisíþróttarinnar og gæti jafnað met Margaret Court yfir flesta sigra á risamótum vinni hann sigur í úrslitaleiknum á morgun.

Medvedev lék hins vegar frábærlega í nótt. Hann vann 7-6, 6-1, 3-6 og 6-3 í settum og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum sem fram fer annað kvöld. Þar verður um að ræða endurtekningu á úrslitaleik þeirra Djokovic og Medvedev fyrir tveimur árum síðar. Þá vann Medvedev og kom í veg fyrir að Djokovic ynni sigur á öllum fjórum risamótum ársins.

„Þetta er ótrúlegt og sérstaklega að vinna einhvern eins og Carlos. Hann hefur unnið með auðveldlega í tvígang á þessu ári þannig að ég efaðist mjög fyrir leikinn,“ sagði Medvedev eftir leikinn í nótt.

„Hann er frábær og þú þarft í raun að vera betri en þú ert til að vinna og sem betur fer var það þannig hjá mér,“ sagði Medvedev en hann átti hvert frábæra skotið á fætur öðru í leiknum.

Rússinn Medvedev hefur átt í stormasömu sambandi við áhorfendur á opna bandaríska meistaramótinu síðustu tvö árin.

„Í sannleika sagt þá voru áhorfendur ótrúlegir í dag. Við háðum magnaða baráttu og ég fann fyrir stuðningi við okkur báða. Í stöðunni 5-3 voru einhverjir Spánverjar sem kölluðu á milli fyrstu og annarar uppgjafar en þeir geta farið og lagt sig núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×