Innlent

Telja mark­mið um orku­skipti ekki munu nást fyrr en ára­tug seinna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tölvumynd af fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá, sem nú er í biðstöðu.
Tölvumynd af fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá, sem nú er í biðstöðu. Landsvirkjun

Samkvæmt nýrri raforkuspá Landsnets sem kynnt verður í dag munu markmið stjórnvalda um orkuskipti ekki nást árið 2040 eins og stefnt var að, heldur árið 2050.

Frá þessu greinir Morgunblaðið en um er að ræða spá um þróun framboðs og eftirspurnar á raforku 2023 til 2060.

Landsnet spáir því að áformaðar jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir ásamt stækkunum eldri virkjana muni ekki duga fyrir orkuskiptum. Kostir í nýtingaflokki rammaáætlunar muni ekki duga til að mæta eftirspurn eftir raforku.

Landsnet telur að horfa þurfi til annarra og fjölbreyttari orkugjafa til að ná settum markmiðum, til að mynda vindorku og jafnvel sólarorku. Rammaáætlun verði að samræma orkuþörf.

Samkvæmt Morgunblaðinu segir í spá Landsnets að nú séu í undirbúningi virkjanir sem koma inn í rekstur á næstu fimm árum en Landsneti telji mikilvægt að hafinn verði undirbúningur virkjana sem koma í rekstur næstu fimm til tíu árin á eftir.

Einnig þurfi að huga að uppbyggingu innviða, bæði flutnings- og dreifikerfa.

„Ef við lít­um á virkj­an­irn­ar og raf­orku­fram­leiðslu þeirra, þá dug­ar ramm­a­áætl­un­in til að svara eft­ir­spurn fyrstu árin en síðan fer að skilja á milli. Þá þarf að fjölga orku­öfl­un­ar­mögu­leik­um, bæði í vatns­afli og jarðvarma, en einnig þarf að taka inn nýja orku­gjafa eins og vindorku og síðan sól­ar­orku,“ er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets.

„Það er tals­verð óvissa í þess­ari orku­spá og því setj­um við fram tvær sviðsmynd­ir, ann­ars veg­ar að mark­mið stjórn­valda ná­ist 2040 og hins veg­ar að þau ná­ist ekki fyrr en 2060. Þess vegna þarf að fara að taka ákv­arðanir um virkj­an­ir mjög fljót­lega, ef við ætl­um að fylla í það gat sem þá verður og mark­miðin eiga að nást. Okk­ar niðurstaða er sú að með auk­inni skil­virkni í orku­mál­um sé raun­hæft að miða við 2050.“

Í raforkuspánni er einnig fjallað um þátt millilandaflugs og siglinga.

„Til að bregðast við óvissu um þann hluta orkuskipta sem snýr að millilandaflugi og siglingum, sem jafnframt er sá hluti orkuskiptanna sem krefjast munu mestrar orku, eru settar fram tvær ólíkar sviðsmyndir um þróun þeirra og tilheyrandi eftirspurn. Fyrri sviðsmyndin sýnir hvernig eftirspurn eftir orku muni þróast ef fullum orkuskiptum verður náð árið 2040 í takt við núverandi áætlanir stjórnvalda. Sú seinni ef að fullum orkuskiptum verður náð tveimur áratugum síðar en stefna stjórnvalda segir eða árið 2060. Í þeirri sviðsmynd er gert ráð fyrir að sá hluti innleiðingar orkuskipta sem krefst mestrar raforku nái yfir 37 ára tímabil héðan í frá. Ástæður þess gætu verið að tæknin sem þarf til að framleiða rafeldsneyti fyrir skip og flugvélar verði lengur í þróun og eða hagkvæmni þess ekki nægileg til þess að styðja við örari framgang og innleiðingu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.