Sport

Segir engar líkur á að Ronda snúi aftur í UFC

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronda Rousey var ein skærasta stjarna UFC um tíma.
Ronda Rousey var ein skærasta stjarna UFC um tíma. getty/Harry How

Dana White segir engan möguleika á því að Ronda Rousey snúi aftur í UFC, rúmum sex árum eftir síðasta bardaga hennar.

Ronda varð ein af stærstu stjörnum UFC eftir að hafa þreytt frumraun sína hjá samtökunum 2013. Þremur árum síðar lagði hún hanskana á hilluna eftir að hafa tapað fyrir Holly Holm og Amöndu Nunes.

Í kjölfarið samdi Ronda við WWE og hóf feril sinn í fjölbragðaglímu. En eftir tap fyrir Shaynu Baszler fyrr í mánuðinum gaf hún í skyn að hún myndi hætta í glímunni. Strax eftir það fóru sögusagnir um að hún myndi snúa aftur í UFC á kreik. White, sem er forseti UFC, hefur hins vegar þvertekið fyrir það.

„Það er enginn möguleiki á því. Hún hefur afrekað allt sem hún stefndi að,“ sagði White.

„Draumur hennar var að vinna UFC titil, svo WWE titil og hún hefur gert það. Hún er stofna fjölskyldu núna. Ronda hefur þénað svo mikið og er enn að græða á styrktarsamningum.“

Ronda er gift fyrrverandi UFC bardagakappanum Travis Browne. Þau eignuðust sitt fyrsta barn, La’akea Makalapuaokalanipo Browne, fyrir tveimur árum.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×